Innlent

Ítarlegar fjallað um mótvægisaðgerðirnar

Ríkisstjórnin hefur ákvörðun um veiðiheimildir næsta fiskveiðiárs og mótvægisaðgeðir vegna fyrirsjáanlegs aflasamdráttar til meðferðar þessa dagana. Á ríkisstjórnarfundi í gær lögðu ráðherrar pólitíkina til hliðar stutta stund á meðan ljósmyndarar smelltu af þeim myndum.
Ríkisstjórnin hefur ákvörðun um veiðiheimildir næsta fiskveiðiárs og mótvægisaðgeðir vegna fyrirsjáanlegs aflasamdráttar til meðferðar þessa dagana. Á ríkisstjórnarfundi í gær lögðu ráðherrar pólitíkina til hliðar stutta stund á meðan ljósmyndarar smelltu af þeim myndum. MYND/Vilhelm

Vinna við mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna áhrifa aflasamdráttar á sjávarbyggðir hefur tekið lengri tíma en upphaflega var ráðgert.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins vildu þingmenn Samfylkingarinnar fara betur yfir framkomnar tillögur, ekki síst efnahagsleg áhrif þeirra, án þess þó að þeir geri um þær efnislegan ágreining.

Ríkisstjórnin ætlar að kynna aðgerðaáætlunina samhliða því sem sjávarútvegsráðherra greinir frá ákvörðun um veiðiheimildir næsta fiskveiðiárs.

Búist var við að ákvarðanirnar yrðu opinberaðar í kjölfar ríkisstjórnarfundar í gær en af því varð ekki.

Aðgerðaáætluninni er ætlað að treysta þær sjávarbyggðir sem verða fyrir mestum búsifjum vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í þorskveiðum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er unnið eftir því leiðarstefi að hafa þær eins almennar og unnt er, þó þannig að innviðir sveitarfélaganna sem verst verða úti styrkist.

Helst er horft til samgöngubóta og bættra fjarskipta og miðar vinnan að því að flýta þegar ákveðnum framkvæmdum. Sem dæmi er skoðað hvort hraða megi framkvæmdum við göng um Óshlíð.

Ekki er rætt um að stofna til nýrra fjárveitinga til mótvægisaðgerða vegna eflingar byggða í vanda heldur tilfærslu verkefna milli ára.

Þingmenn Samfylkingarinnar komu saman í gærmorgun og hittast á ný á morgun. Er búist við að þá reki þingflokkurinn smiðshöggið á aðgerðaáætlunina fyrir sitt leyti.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hittist síðdegis á mánudag og fór ítarlega yfir stöðuna. Á þeim bæ hefur verið búið svo um hnúta að ekki er talin sérstök ástæða til að þingflokkurinn ræði málið aftur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×