Lífið

Skírði í höfuðið á móður Lennon

Nafnið Jarún er í höfuðið á langömmum og -öfum hennar en Júlía er í höfuðið á móður Bítilsins John Lennon.
Nafnið Jarún er í höfuðið á langömmum og -öfum hennar en Júlía er í höfuðið á móður Bítilsins John Lennon. Mynd/Heiða

Jakob Frímann Magnússon og kona hans Birna Rún Gísladóttir eignuðust sem kunnugt er dóttur í lok maí síðastliðins. Sú litla var skírð nýverið og var gefið nafnið Jarún Júlía, en hún er sú eina á landinu sem ber Jarúnarnafnið.

„Ef merkingin er skoðuð má sjá að forskeytið „ja“ er komið af sama stofni og guðsnafnið „jave“. Rún þýðir hinsvegar tákn. Nafnið merkir því eiginlega guðstákn og hvað er táknrænna fyrir almættið en nýfætt stúlkubarn?“ sagði Jakob þegar Fréttablaðið hafði samband við hann og spurði hvaðan þetta óvenjulega nafn væri komið.

Nafn Jarúnar er þó ekki leitt beint af nöfnum þeirra Jakobs og Birnu Rúnar. „Það er búið að skíra í höfuðið á báðum ömmum barnsins. Þess vegna fórum við að skoða bæði langafa- og ömmur,“ segir Jakob. „Birnu megin voru nöfnin Guðrún og Sigrún. Afi minn hét Jakob. Allir þessir einstaklingar voru miklir áhrifavaldar í okkar lífi. Seinna nafnið, Júlía, er hinsvegar í höfuðið á móður John Lennon,“ segir Jakob og bætir því við að Lennon hafi alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá bæði sér og Birnu.

„Hugmyndin að nafninu fæddist fljótlega eftir að við sáum myndir af barninu í þrívíddarsónar. Við mátuðum nafnið strax við hana og það hefur bæði vanist og vaxið síðan.“ Mannanafnanefnd samþykkti nafnið einróma og gestir í skírninni gerðu slíkt hið sama. „Viðbrögðin hafa öll verið á einn veg enda ber stúlkan nafnið með stakri prýði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×