Innlent

Nemendur á Bifröst óánægðir með hækkun leiguverðs

Háskólinn á Bifröst.
Háskólinn á Bifröst. MYND/365

Töluverð óánægja ríkir meðal hluta nemenda við Háskólann á Bifröst eftir að tilkynnt var um hækkun á leiguverði íbúða í háskólaþorpinu í dag. Hópur nemenda íhugar að segja upp leigusamningi sínum og flytja til Borgarness. Rektor skólans segir um samræmingaraðgerð að ræða og aðeins lítill hluti íbúða hækki í leigu.

„Það er mikil óánægja hjá þeim sem hafa orðið fyrir hækkuninni," sagði Elín Björg Ragnarsdóttir, hjá íbúaráði háskólaþorpsins á Bifröst, í samtali við Vísi. „Það hækkar mest hjá fjölskyldufólki en einstaklingsíbúðir eru á móti að lækka í verði."

Háskólinn á Bifröst tilkynnti í dag fyrirhugaðar breytingar á leiguverði íbúða í háskólaþorpinu. Samkvæmt breytingunum hækkar mánaðarleiga á fjölskylduíbúðum um allt að 14 þúsund krónur. Leiga á einstaklingsíbúðum lækkar hins vegar um allt að 8 þúsund krónur. Eiga breytingarnar að taka gildi 1. september næstkomandi.

Einn nemandi sem setti sig í samband við Vísi sagðist vera mjög ósáttur við þessar breytingar. Hann sagði leiguverð á íbúðum í háskólaþorpinu langt fyrir ofan eðlilegt markaðsverð. Sagði hann suma íhuga að segja upp leigusamningi sínum og leigja þess í stað í Borgarnesi.

Alls eru um 200 íbúðir í háskólaþorpinu að Bifröst.

Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, sagði í samtali við Vísi að um samræmingaraðgerðir væri að ræða. Skólinn væri að mæta umræðu meðal nemenda um innbyrðis ósamræmi milli leiguverðs á íbúðum. Benti hann á að í flestum tilvikum væri leigan í raun að lækka.

„Leigan lækkar í 75 prósenta tilvika og skólinn verður af tekjum vegna þessara breytinga. Þetta er því ekki kappsmál af okkar hálfu. Við munum að sjálfsögðu skoða málið og bregðast við kvörtunum, " sagði Ágúst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×