Innlent

Árni Johnsen ítrekað misst stjórn á sér og sýnt dómgreindarskort segir Þjóðhátíðarnefnd

Sighvatur Jónsson skrifar

Þjóðhátíðarnefnd í Vestmannaeyjum treysti sér ekki til að bera ábyrgð á Árna Johnsen sem kynni á hátíðinni. Nefndin segir það vera vegna þess að hann hafi ítrekað misst stjórn á sér og sýnt dómgreindarskort í þeim störfum.

Árni Johnsen segir í viðtali í Þjóðhátíðarblaðinu, sem kom út í dag, að hann sé ósáttur við hvernig staðið var að skiptum á kynni Þjóðhátíðar í fyrra. Hann hafði þá gegnt starfinu í þrjátíu ár.

Árni segir það broslegt þegar sér hafi verið tilkynnt það á skyndifundi í Herjólfsdal af Páli Scheving í Þjóðhátíðarnefnd, að tveir af þremur nefndarmönnum vildu að hann hætti sem kynnir hátíðarinnar.

Árni segist hafa spurt Pál að því hvort það væri pólitík í þessu. Páll hafi byrst sig ógurlega og sagt að ef Árni talaði svona til hans fengi hann ekkert að vera á Þjóðhátíð. Árni segist hafa fengið þarna svar við spurningu sinni.

Í yfirlýsingu sem Þjóðhátíðarnefnd sendi Stöð 2 í dag eru ummæli Árna kölluð leirburður, og sögð vera bæði ósönn og ærumeiðandi. Páll hafi ekki svarað með þeim hætti sem Árni lýsir, hann hafi þess í stað sagt spurninguna ósanngjarna, þar sem Þjóðhátíðarnefnd blandi ekki pólitík við sín störf.

Í yfirlýsingunni ítrekar Þjóðhátíðarnefnd ástæðu þess að Árna var gert að hætta sem kynnir. Það hafi verið í kjölfar þess að Árni hafi slegið söngvarann Hreim Heimisson á Brekkusviðinu árið 2005. Nefndin segir að öll vitni að atburðinum hafi verið sammála um að Árni hafi slegið Hreim. Í framhaldi segir í yfirlýsingu Þjóðhátíðarnefndar:

„Þessi atburðarás varð til þess að Þjóðhátíðarnefnd tók þá ákvörðun einróma að skipta um kynni. Það skal tekið fram að þetta er ekki í fyrsta og eina skiptið sem Árni missir stjórn á sér á Brekkusviðinu og sýnir af sér dómgreindarskort."

Þjóðhátíðarnefnd segir að ummæli Árna í Þjóðhátíðarblaðinu séu aumkunarvert yfirklór, sem nefndin kjósi að skoða sem tæknileg mistök. Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir:

„Nefndin treysti sér einfaldlega ekki lengur til að bera ábyrgð á Árna Johnsen sem kynni á Brekkusviðinu. Það er lykilatriði í málinu. Lái okkur hver sem er."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×