Erlent

Obama tilbúinn að ráðast gegn hryðjuverkamönnum innan Pakistan

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Barack Obama, frambjóðandi í forvali Demókrata til bandarísku forsetakosninganna, sagði í dag að hann væri reiðubúinn til að fyrirskipa hernaðaraðgerðir gegn al-Kaída í Pakistan án samráðs við stjórnvöld þar í landi ef hann kæmist til valda.

Pakistan er einn helsti bandamaður bandaríkjanna í þessum heimshluta. Omaba lét þessi orð falla í ræðu þar sem hann greindi frá stefnu sinni í utanríkismálum. Þá sagðist hann mundu gera hundruðir milljóna dollara sem Bandaríkin veita Pakistan í hernaðaraðstoð háð því hvernig þeim gangi að uppræta þjálfunarbúðir Talibana, reka erlenda vígamenn úr landi og koma í veg fyrir að talibanar geri árásir á Afganistan frá pakistönsku landsvæði.

Talsmaður í utanríkisráðuneyti Pakistans sagði að hótanir gegn al-Kaída ætti ekki að nota til að skora stig í kosningabaráttu og að frambjóðendur ættu að sýna ábyrgð.

Fyrr í mánuðinum sakaði Hillary Clinton, keppinautur Obama, hann um að vera barnalegan í utanríkismálum, þegar hann sagðist að sem forseti myndi hann vilja hitta leiðtoga ríkja á borð við Íran, Norður-Kóreu og Kúbu.

Samkvæmt könnun Wall Street Journal hefur Clinton aukið forskot sitt á Obama, og nýtur nú stuðnings 43 prósenta kjósenda Demókrata, en Obama mælist með 22 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×