Innlent

Slóst um byssu við vopnaða ræningja

Íslendingarnir voru á leið heim rétt eftir miðnætti þegar þeir urðu fyrir árásinni.
Íslendingarnir voru á leið heim rétt eftir miðnætti þegar þeir urðu fyrir árásinni. nordicphotos/getty

„Ég veit ekki hvað ég var að hugsa, en hann var að beina byssunni að okkur og ég greip í byssuna og reyndi að taka hana af honum,“ segir Einar Hjörvar Benediktsson, sem varð fyrir árás vopnaðra ræningja ásamt tveimur vinum sínum í Manhattan-hverfi í New York-borg aðfaranótt miðvikudags.

„Þeir voru æstir og öskruðu þetta oft, „láttu mig hafa peningana, láttu mig hafa helvítis peningana!“,“ segir Trausti Þorgeirsson, en hann og Magnús Heiðar Björnsson flugu frá Íslandi til að heimsækja Einar, sem vinnur hjá eignastýringafyrirtæki á Wall Street.

Kvöldið sem þeir lentu urðu þeir fyrir árásinni. „Við vorum að ganga í gegnum einhvern garð, þetta var kannski ekki í öruggasta hverfinu,“ segir Trausti. „Þá komu tveir blökkumenn, líklega um átján ára, og skipuðu okkur að láta sig hafa peninga.“

Annar unglinganna hélt á skammbyssu og otaði henni að Íslendingunum. Trausti segir að þeir hafi verið æstir og krafið þá um „helvítis peningana“ (e. the fucking money).

„Maggi rétti þeim veskið sitt og sýndi að það var enginn peningur í því,“ segir Trausti. „Þá ætluðu þeir að fá veskið hjá Einari, en hann stökk á byssuna og þeir fóru að fljúgast á.“

Einar segist hafa verið pirraður. „Ég var alveg klár á að þetta væri platbyssa, en eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið alvöru byssa,“ segir hann.

Einar náði byssunni af ræningjanum. „Svo af einhverri ástæðu rétti ég honum byssuna til baka,“ segir Einar. „Ég sé dálítið eftir því. Ég held að hann hafi orðið hissa, haldið að ég væri alveg snargeðveikur, þannig að þeir hlupu burt.“

Ræningjarnir tóku byssuna með sér og ekki var hleypt af. Veski Magnúsar skildu þeir eftir. „Þetta var svo mikið adrenalínkikk, en svo varð ég skíthræddur, eftir á að hyggja,“ segir Einar.

Eftir að ræningjarnir voru flúnir héldu þremenningarnir áfram för sinni. Þeir tilkynntu lögreglu ekki um atvikið. „Það varð enginn skaði, þannig að það var óþarfi,“ segir Trausti.

Magnús og Trausti verða í New York í viku enn. Ferðin hefur verið róleg fyrir utan árásina og slæmt veður, að sögn Trausta. Þeir höfðu búist við sumarveðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×