Innlent

Síminn tilkynnti aðeins tveimur fjölmiðlum um símasambandsleysi

MYND/Vilmundur

Upplýsingafulltrúi Símans segir að fyrirtækið hafi sent út tilkynningu þess efnis að símasambandslaust yrði í Bolungarvík strax á Sunnudag. Rafmagnið var tekið af í nótt og hefur bæjarstjórinn gagnrýnt að bæjarbúar hafi ekki verið látnir vita fyrr en síðdegis í gær. Tilkynningin frá Símanum var hins vegar aðeins send til Ríkisútvarpsins og á ritstjórn Bæjarins besta.

Linda Björk Waage, upplýsingafulltrúi Símans, segir afar sjaldgæft að loka þurfi fyrir símasamband á heilu bæjarfélagi. „Þegar svona kemur upp á sendi ég tilkynningu um lokunina á fréttastofu Ríkisútvarpsins og í þessu tilfelli einnig á vestfirska fréttamiðilinn Bæjarns besta." Linda Björk bendir á að NMT símasamband hafi verið í bænum og hafi lögregla getað haft samskipti í gegnum það kerfi. Sambandsleysið varði í fimmtíu mínútur.

Grímur Atlason bæjarstjóri Bolungarvíkur gagnrýndi Símann harðlega vegna málsins í gær og sagði ljóst að málinu væri ekki lokið af hálfu bæjaryfirvalda. Hann sagði einnig ljóst að fyrirtækið þyrfti að breyta verklagsreglum sínum þegar mál af þessu tagi koma upp. Linda segir að fyrirtækið hafi ekki heyrt í Bolvíkingum vegna málsins. Hún segir allan aðdraganda hafa verið unnin eftir fyrirfram skilgreindu ferli en að vel komi til greina að endurskoða það ferli í framtíðinni, gerist þess þörf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×