Innlent

Óþarfi að búa til rússagrýlu

Utanríkisráðherra telur ekki ástæðu til að magna upp rússagrýlu vegna rússnesku herflugvélanna sem flugu hringferð um landið í gær. Óljóst er hvort vélunum var fylgt eftir á för sinni og ráðherra gat ekki svarað hve nálægt þær voru ströndum Íslands. Hernaðarandstæðingar segja að flug sem þetta gæti orðið tíðara í framtíðinni.

Í allt áttu sér stað þrjár mismunandi ferðir rússneskra sprengjuflugvéla um loftrýmis-eftirlitssvæði Atlantshafs-bandalagsins sem Ísland tilheyrir.

Í tveimur tilfellum flugu vélarnar beint í suður, austan af landinu, en í því þriðja komu flugvélarnar tvær inn í eftirlitssvæði Íslendinga norðaustur af landinu, fyrst í vesturátt og beygðu svo til suðurs milli Íslands og Grænlands og fóru hringferð um landið.

Fylgst var með fluginu allan tímann af Ratstjárstofnun og upplýsingum miðlað til viðeigandi stofnanna innanlands, ásamt því að skipst var á upplýsingum við viðeigandi herstjórnir innan Nató.

Viðbrögð við fluginu voru samhæfð á milli þriggja bandalagsríkja, Íslands, Noregs og Bretlands og mættu breskar og norskar orrustuþotur sprengjuflugvélunum og fylgdu þeim hluta leiðarinnar. Utanríkisráðherra gat ekki sagt til um hvort sprengjuflugvélunum tveimur sem fóru hringferð um landið hafi verið fylgt eftir á þeirri leið sinni.

Utanríkisráðherra segir flugið ekki hafa komið íslenskum stjórnvöldum algjörlega á óvart. Vitað hafi verið að Rússar væru á æfingum við Norðurpólinn og því allt eins líklegt að þeir myndu gera eitthvað þessu líkt.

Ingibjörg segir flug rússnesku herflugvélanna ekki tengjast heræfingunum sem voru hér á landi í síðustu viku. Þessu eru samtök hernaðarandstæðinga ósammála. Stefán Pálsson formaður samtakanna var gestur í hádegisviðtali Stöðvar 2 í dag. Þar sagði hann að ef áfram verður haldið að æfa hernað hér á landi þá ættu menn að vera því viðbúnir því að rússneskum herflugvélum verði flogið hingað í ríkari mæli.

Hann sagði ennfremur að ástæða sé til hafa nokkrar áhyggjur af því að samskipti Rússa og Bandaríkjamanna fari stigversnandi.

Utanríkisráðherra segir þó enga ástæðu til að óttast, óþarfi sé að búa til einhverja rússagrýlu vegna þessa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×