Á fundinum tilkynntu ráðherrar Svíþjóðar og Noregs að þessi tvö ríki myndu senda herlið á átakasvæðin til að ganga á milli fylkinga. Kristrún segir að slíkt sé ekki skilgreint hlutverk íslensku friðargæslunnar enda séu íslenskir friðargæsluliðar ekki hermenn. Íslendingar geti hins vegar tekið þátt í friðaruppbyggingu á seinni stigum. Ekki verði skorast undan þeirri ábyrgð þegar og ef hernaðarátökum lýkur.
Uppreisnarhópar í Darfúr héraði hafa síðustu ár barist við stjórnarher og skæruliða hliðholla stjórnvöldum í Súdan. Ráðamenn í höfuðborginni Khartoum eru sagðir horfa framhjá og styðja stríðsglæpi gegn íbúum héraðsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki viljað ganga svo langt að kalla það þjóðarmorð.
Alls óvíst er hvenær hægt verður að binda enda á átök í héraðinu. Í morgun greindi breska ríkisútvarpið, BBC, frá því á vefsíðu sinni að mannrétindasamtökin Amnesty International hefðu gögn sem sýndu að stjórnvöld í Súdan hefðu sent vopn til Darfúr héraðs sem er alvarlegt brot á vopnabanni Sameinuðu þjóðanna. Myndir samtakanna sýnu rússneskar herþylur og flutningavélar á flugvelli Darfúr í júlí. Sendiherra Súdana í Lundúnum segir þetta grunsamlegar myndir og ætlað að villa um fyrir alþjóðasamfélaginu.
Talið er að um tvö hundruð þúsund manns hafi týnt lífi í átökum í héraðinu síðan 2003 og tvær milljónir manna vergangi. Þessu neita ráðamenn í Súdan og segja um níu þúsund manns hafa fallið í átökum.