Innlent

Varhugavert að virkja í Þjórsá segir Ragnar Stefánsson

Varhugavert er að reisa virkjun á fyrirhuguðu svæði við Þjórsá, að mati Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings, sem telur að það geti reynst mönnum dýrkeypt að virkja þar.

Umhverfisverndarsinnar hafa gagnrýnt fyrirætlanir Landsvirkjunar um virkjun í neðri hluta Þjórsár. Hluti landeigenda við Þjórsá hefur sett fram getgátur um að vatn í fyrirhuguðu lóni komi til með að leka niður í sprungur á svæðinu. Ingibjörg Elsa Björnsdóttir jarðfræðingur tekur undir þær hugmyndir og segir þekkt að vatnsból og lindir hverfi hreinlega á svæðinu.

Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur telur að svæðið í heild sinni sé alls ekki öruggt og hann segir að ef til vill sé virkjun Þjórsár of dýrkeypt. Ragnar segir að almennt virðist sem Íslendingar byggi mest á þeim svæðum á landinu þar sem mesta váin sé fyrir hendi.

Sumir landeigendur við Þjórsá hafa haldið því fram að stíflur verði í hættu vegna jarðskjálfta á svæðinu og þar með sé íbúum á svæðinu hætta búin.

Ingibjörg Elsa segir að á 19. öld hafi Skarðsfjall í Landsveit nánast rifnað í tvennt í jarðskjálftum og björgum lostið saman í Ingólfsfjalli með eldglæringum.



Þótt jarðskjálftahættan á svæðinu sé ótvíræð virðist það nokkuð samdóma álit sérfræðinga að Íslendingar hafi þekkingu til að byggja mannvirki sem standi af sér þá skjálfta á svæðinu sem eru líklegastir. Jónas Þór Snæbjörnsson, verkfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði, segir að jarðskjálftar hér ógni ekki fyrirhuguðum mannvirkjum við Þjórsá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×