Innlent

Gekk í skrokk á dómara og braut þrjú rifbein

Heimir Már Pétursson skrifar

Markmaður í utandeildarliði Gym 80 í knattspyrnu réðst á dómara eftir leik liðsins í gær og gekk svo í skrokk á honum að þrjú rifbein brotnuðu. Þetta er sami maðurinn og réðst á Eið Smára Guðjohensen í miðbænum í sumar.

Utandeildarliðin Gym 80 og Vatnaliljurnar spiluðu leik á Varmárvelli í gær. Þegar langt var liðið á leikinn var markvörður Gym 80 ekki sáttur við dómgæsluna og lét fúkyrðin rigna yfir dómarann Val Steingrímsson og elti hann út að miðju vallarins. Þar sýndi Valur manninum rauða spjaldið og við það fór maðurinn bölvandi út af vellinum.

Þarna voru aðeins tvær mínútur eftir af leiknum. Eftir að Valur flautaði leikinn af kom árásarmaðurinn askvaðandi inn á völlin og sló dómarann fyrst í höfuðið áður en hann sparkaði undan honum fótunum. "Við það féll ég og lenti með höndina undir mér," segir Valur. En við fallið brotnuðu þrjú rifbein.

Valur er einnig mjög aumur í annarri hendinni. Hann fékk áverkavottorð en er ekki enn búinn að ákveða hvort hann kærir árásina. Honum finnst það þó líklegt enda eigi ekki að láta menn komast upp með framkomu sem þessa, hvorki á íþróttavellinum né annars staðar.

Valur tekur ákvörðun um það á morgun hvort hann kærir. Þetta mun vera sami maðurinn og réðst á Eið Smára Guðjohnsen í miðbæ Reykjavíkur í sumar en afskipti annarra komu í veg fyrir að Eiður Smári slasaðist í þeirri árás.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×