Viðskipti innlent

Einhliða evruvæðing ekki úr myndinni

Fjölmargir sóttu ráðstefnu RSE á fimmtudaginn var Í pontu má sjá Benn Steil frá Council on Foreign Relations í New York, Illuga Gunnarsson, alþingismann og fundarstjóra, Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sem flutti setningarávarp, Gabriel Stein frá Lombard Street Research,  Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, og Ársæl Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Glöggir lesendur geta svo reynt að ráða af hnakkasvip þeirra gesta sem sjást hverjir þar eru á ferð.
Fjölmargir sóttu ráðstefnu RSE á fimmtudaginn var Í pontu má sjá Benn Steil frá Council on Foreign Relations í New York, Illuga Gunnarsson, alþingismann og fundarstjóra, Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sem flutti setningarávarp, Gabriel Stein frá Lombard Street Research, Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, og Ársæl Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Glöggir lesendur geta svo reynt að ráða af hnakkasvip þeirra gesta sem sjást hverjir þar eru á ferð. Hörður

Upphafsstafur:Talað var fyrir kostum einhliða evru- eða dollaravæðingar þjóðríkja á ráðstefnu sem RSE, rannsóknamiðstöð um samfélags- og efhahagsmál, hélt fyrir helgina um gjaldmiðla og alþjóðavæðingu. Annars vegar var fjallað um möguleika smærri hagkerfa, líkt og okkar, til þess að halda úti sjálfstæðri mynt og þar með sjálfstæðri peningastefnu. Hins vegar var fjallað um framtíð gjaldeyrisfyrirkomulags í heiminum.

Erlendu sérfræðingarnir sem voru með framsögu á ráðstefnu RSE töldu ljóst að fjaraði undan trúverðugleika smærri mynta og það væri þróun sem jafnvel gæti svo smitað yfir á þær stærri. Sumir hverjir töldu jafnvel borðleggjandi að dollara-, eða öllu heldur evruvæðing, væri rétta leiðin hér og vitnuðu til fordæma og eigin reynslu í Mið- og Suður-Ameríku.

Óliku saman að jafna
Á fundi RSE síðasta fimmtudag Illugi Gunnarsson alþingismaður stýrði fundi RSE og fylgist hér með Þórarni G. Péturssyni, staðgengli aðalhagfræðings Seðlabankans, verja krónuna. Markaðurinn/Hörður

Helst var að efasemdarraddir um þessa leið heyrðust í setningarávarpi Björgins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra sem þó telur evruna ákjósanlega hér og þá í tengslum við inngöngu í Evrópusambandið og hjá Þórarni G. Péturssyni, staðgengli aðalhagfræðings Seðlabankans, sem þátt tók í pallborðsumræðum.

„Mér finnst merkilegt í umræðu sem þessari að stöðugt séu bornir á borð þeir afarkostir að hafa annað hvort slæma stefnu í peningamálum eða alls enga,“ segir hann og kveður gengi krónunnar ekki sveiflast meira en gengi annarrar myntar. Hann bendir jafnframt á að í Ameríku sé að finna í Chile dæmi um flotgengismynt þar sem hagkerfi landsins standi vel og betur en í El Salvador og Ekvador þar sem farin hafi verið leið dollaravæðingarinnar. „Engin spurning er að hægt er að bæta slæmt hagkerfi með dollaravæðingu, en hennar gerist hins vegar ekki þörf í hagkerfi þar sem gengur vel.“

Viðskiptaráðherra bendir jafnframt á að einhliða upptaka evru væri dýr leið þar sem bankar yrðu án baklands í Seðlabanka Íslands. „Líklega yrði sá kostur mun dýrari en full aðild að Evrópusambandinu nokkru sinni,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, en fagnar umræðunni um framtíðarskipan gjaldeyrismála hér. „Mörgum spurningum þarf að svara áður en hægt er að taka ákveðin skref.“

Tilfellið er að hér býr þjóðin við nokkurn stöðgleika og hagvöxt í þróuðu vestrænu ríki þar sem regluverk og lagaumgjörð er á við það sem best gerist í heiminum. Landið er ekki plagað af vandamálum sumra Ameríkuþjóða þar sem fólk reynir að leggja fyrir í erlendri mynt vegna vantrúar á eigin gjaldmiðil og af ótta við pólitískan óstöðugleika. Ólafur Davíðsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, sem einnig tók þátt í pallborði á ráðstefnunni, benti jafnframt á að ólíkt El Salvador væri hér til staðar stöndugt lífeyriskerfi.

Akkillesarhællinn
Fylgismenn dollaravæðingar Gabriel Stein, aðalhagfræðingur alþjóðahagfræðisviðs hjá Lombard Street Research, og Manuel Hinds, ráðgjafi og fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador. Markaðurinn/Hörður

Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, sem nú starfar sem ráðgjafi, og var með framsögu á ráðstefnunni segir hins vegar ekki spurningu um að fara ætti leið dollaravæðingarinnar hér.

Þá skoðun byggir hann á eigin reynslu og reynslu El Salvador við dollaravæðinguna þar. Á ráðstefnunni útlistaði hann skref fyrir skref hvernig fara skyldi að um leið og hann taldi að þeir kostir sem sagðir væru fylgja sjálfstæðri peningastefnu og eigin mynt væru í raun ekki til staðar. Þannig segir Hinds að sjálfstæði í vaxtaákvörðunum væri ofmetið því vextirnir ákvörðuðust í raun af vöxtum annars staðar í heiminum, lands- og gengisáhættu. „Ef gjörðir annarra hafa áhrif á ykkur, þá eruð þið betur sett í liði með hinum,“ segir hann og telur í raun ekki annað þurfa til en að ákveða dagsetningu til gengisskiptanna. „Best er að biðja samt Seðlabanka Evrópu um ráðgjöf í þessu og bjóða honum að hafa hér fulltrúa til að fylgjast með ferlinu, en enda á því að upplýsa Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um breytinguna. Hann yrði eðlilega á móti henni enda að glata viðskiptavini.“

Benn Steil, forstöðumaður alþjóðahagfræðisviðs hjá Council on Foreign Relations í New York í Bandaríkjunum og frummælandi á ráðstefnu RSE, sagði svo í máli sínu að þjóðernishyggja í gjaldmiðlamálum væri „Akkillesarhæll alþjóðavæðingarinnar“. Hann telur alþjóðavæðinguna og kvikar fjármagnshreyfingarnar skapa vanda fyrir smærri myntir og geri þeim erfiðara en áður að virka eins og til sé ætlast. Steil telur að gjaldmiðlum í heiminum eigi eftir að fækka og horfir jafnvel til framtíðar þar sem allur heimurinn byggir á einum rafrænum gjaldmiðli sem myndi þá byggja á gullfæti. „Þannig gætum við endað á sama stað og lagt var upp frá. Sama stað og við höfum verið mestalla mannkynssöguna,“ segir hann.

Björn Rúnar Guðmundsson, forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands, hlustaði á erindi og umræður á ráðstefnu RSE og þótti hún um margt forvitnileg. Hann segir vangaveltur um heimsgjaldmiðil sem byggði á rafvæddum gullfæti ef til það fjarri að raunhæfara væri að líta sér nær í valkostum. „Fyrsta ákvörðun væri frekar að tengja sig við eitthvert af þessum stóru kerfum. Hvað okkur varðar er evrópska myntbandalagið það sem liggur næst,“ segir hann og telur það áhugavert sem fram kom á ráðstefnunni að kostirnir í gjaldeyrismálum væru fleiri en þeir tveir sem lagt hefur verið upp með í umræðu hér, en það er annars vegar upptaka evru og aðild að Evrópusambandinu sem í raun væri forsenda þeirrar upptöku, eða að búa áfram við núverandi fyrirkomulag með flotgengi krónunnar. „Mér fannst menn yfirgefa ráðstefnuna með það í huga að aðrir kostir, sem ekki væru síður raunhæfir fyrir land eins og Ísland, væru til staðar.“

Sveifluáhrif krónu önnur
Benn Steil Benn Steil, sem er forstöðumaður alþjóðahagfræðisviðs Council on Foreign Relations í Bandaríkjunum, sér fyrir sér að í framtíðinni gæti farið svo að heimurinn sameinaðist með rafrænum hætti um einn gjaldmiðil sem stoð ætti í verðmætum á borð við gull. Með því segir hann að yrði horfið til þess fyrirkomulags gjaldmiðlamála sem lengstan part hafi ríkt hjá mannskepnunni. Markaðurinn/Hörður

Björn Rúnar leggur engu að síður áherslu á að þótt lausnir á borð við dollaravæðingu séu til staðar sé ekki þar með sagt að þær heppnist endilega. „Við búum enn í hagkerfi sem að verulegu leyti byggir á auðlindanýtingu, sjávarútvegi og orkuframleiðslu. Svo erum við með fjárhagslegar langtímaskuldbindingar sem getur verið flókið að fást við ef við vildum fara í myntbreytingu. Annars vegar er það hvað gerist með húsnæðislánin og hver situr uppi með skellinn ef langtímavextir lækka varanlega.

Tveir aðilar myndu fara illa út úr því, Íbúðalánasjóður og lífeyris­sjóðirnir. Á móti kæmi hagræði fyrir heimilin og fyrirtækin. Þessi vandi er óháður því með hvaða hætti evran yrði tekin upp. Síðan er þessi klassíska hagstjórnarspurning um hvort menn séu tilbúnir að axla það sem því fylgir að gefa frá sér sjálfstæða peningastefnu. Hvað sem sagt er um peningalega þjóðernishyggju þá fylgir henni efnahagslegur öryggisventill sem vissulega hefur nýst okkur í gegn um tíðina. Hvort það er besta lausnin í dag er svo annað mál.“

Björn Rúnar segir hins vegar að þótt krónan sveiflist kannski ekki meira en aðrir gjaldmiðlar, svo sem japanska jenið, þá séu áhrifin af sveiflu krónunnar önnur. „Sveiflurnar í gengi jensins skapa ekki verðbólgu í Japan með sama hætti og sveiflur í gengi krónunnar gera hér,“ segir hann og bætir við að þótt einhliða upptaka annarrar myntar hér væri ekki fullkomnasta fyrirkomulag sem mætti hugsa sér myndi það gegna betur tilætluðu hlutverki en mynt sem með sveiflum sínum leiðir af sér mikla ólgu í undirliggjandi rekstrarskilyrðum fyrirtækja og verðbólgu fyrir heimilin.

„Þegar upp er staðið er hlutverk peninga að greiða fyrir viðskiptum milli einstaklinga og fyrirtækja, eins konar smurning á efnahagslífið, auk þess að mæla og viðhalda eignum og gæðum. Þegar þessi virkni er farin að líða fyrir sveiflur og smæð myntanna þá setur maður spurningarmerki við hversu lengi er réttlætanlegt að viðhalda myntinni og hvort maður fái eitthvað út úr því að halda úti sjálfstæðri mynt,“ segir hann og telur að eftir fund sem þann sem RSE stóð fyrir á fimmtudaginn mætti gefa hugmyndum sem þessum smáséns.

„Mín persónulega skoðun er sú að það kerfi sem við byggðum upp árið 2001 þegar við tókum upp verðbólgumarkmið hefur ekki skilað þeim árangri sem menn vonuðust eftir. Mjög nauðsynlegt er því að skoða með opnum huga hvort ástæða er til að reyna aðra leið til að ná markmiðum um efnahagslegan stöðugleika þar sem viðhaldið er sæmilega eðlilegum rekstrarskilyrðum fyrir atvinnulífið og lágmarks verðbólgu.“ Þá segist Björn Rúnar sammála fyrirlesurum ráðstefnu RSE um að þróunin í heiminum sé frekar í þá átt að myntir verði færri og stærri. Björn Rúnar telur upptöku flotkrónunnar 2001 hafa verið rétta ákvörðun miðað við þær aðstæður sem á voru til staðar. „En þar með er ekki sagt að við eigum að vera með núverandi fyrirkomulag um alla framtíð. Rökin fyrir því að taka upp fastgengi eru mun sterkari nú en þau voru fyrir sex árum.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×