Innlent

Segja hlutafélagavæðingu OR undanfara einkavæðingar

Til stendur að taka fyrir tillögu á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur nú eftir hádegið um að hlutafélagavæða fyrirtækið. Oddvitar minnihlutans í borginni segja um upptakt að einkavæðingarferli OR að ræða en stjórnarformaður Orkuveitunnar segir að félagið verði áfram í eigu sveitarfélaganna.

Í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitunnar, og Svandísi Svavarsdóttur, fulltrúa Vinstri - græna, segir að engin umræða hafi farið fram um hlutafélagavæðingu Orkuveitunnar. Hún er nú í eigu Reykjavíkurborgar (93,5%), Akraneskaupstaðar (5,5%) og Borgarbyggðar (1%). Benda þau að þau sem aðalmenn séu fjarstödd á stjórnarfundi Sambandsins íslenskra sveitarfélaga á Ísafirði og hafi hvorugt fengið send fundargögn vegna málsins.

„Nú laust fyrir hádegið hafnaði stjórnarformaður Orkuveitunnar rökstuddri ósk um að fresta afgreiðslu málsins. Þetta er fordæmislaust og freklegt brot gegn eðlilegum vinnubrögðum í stjórn fyrirtækisins. Þessu mótmæla undirritaðir stjórnarmenn harðlega," segir í tilkynningunni.

Dagur og Svandís bend á að í rökstuðningi tillögunnar komi fram að "tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja." Erfitt sé því að skilja þessa atburðarrás öðru vísi en sem upptakt að einkavæðingarferli OR en það væri þvert á margítrekaðar yfirlýsingar borgarstjóra og meirihlutans í Reykjavík.

Vilja stjórnarmennirnir tveir að meiri umræða fari fram um málið í samfélaginu og hyggjast Samfylkingin og VG munu óska eftir því að rekstrarform Orkuveitunnar verði sett á dagskrá borgarstjórnarfundar á þriðjudaginn í næstu viku.

Hlutafélag verði í eigu sveitarfélaganna þriggja

Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að ætlunin sé að hlutafélagið verði áfram í eigu sveitarfélaganna þriggja en eftir eigi að ræða um hugmyndina. Hann segir aðspurður að stjórnendur fyrirtækisins hafi lagt fram hugmyndina en það sé endanlega í höndum eigendanna, Reykjavíkurborgar, Akraness og Borgarbyggðar, að ákveða hvort Orkuveitan verði hlutafélagavædd.

Aðspurður hafnar Haukur því að eitthvað liggi á bak við það að ræða málið núna þegar oddvitar Samfylkingarinnar og VG eru fjarverandi. Flokkarnir tveir eigi varamenn í stjórn og þeir taka sæti Dags og Svandísar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×