Innlent

Segir umsókn um rannsóknarleyfi í Gjástykki nærri þriggja ára gamla

MYND/Vísir

Umsókn Landsvirkjunar vegna rannsóknarleyfis í Gjástykki í grennd við Mýtvatn var fyrst lögð fram í október 2004 og fyrirtækið hafði áður ýtt á eftir málinu, segir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Hann segir að með ítrekunarbréfi Landsvirkjunar til iðnaðarráðuneytisins skömmu fyrir kosningar í vor hafi fyrirtækið aðeins verið að fylgja eftir hagsmunum sínum gagnvart stjórnsýslunni.

Landvernd og Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi hafa óskað eftir því að umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis rannsaki hvers vegna leyfi til jarðhitarannsókna í Gjástykki var veitt tveimur dögum fyrir kosningar í vor. Fram kom að iðnaðaráðuneytið hefði fengið ósk um leyfið tveimur dögum fyrr, eða 8. maí., en Jón Sigurðsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, sagði þar á ferðinni ítrekunarbréf frá Landsvirkjun. Rannsóknarleyfið hefði verið tilbúið í ráðuneytinu og því hefði hann vel getað veitt það nokkrum vikum fyrr.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir umsókn fyrirtækisins um rannsóknarleyfi í Gjástykki, hafa fyrst verið senda ráðuneytinu 8. október 2004 og ýtt hafi verið á eftir málinu í langan tíma. Hann hafnar því að ítrekunarbréfið hafi verið sent vegna þess að kosningar voru í nánd og segir að það hefði verið óeðlilegt ef öll stjórnsýsla legðist á hliðina fyrir kosningar. „Það var ekkert annað í gangi en að fyrirtækið var að fylgja hagsmunum sínum gagnvart stjórnsýslunni," segir Þorsteinn.

Umrætt jarðhitarannsóknarleyfi tengist orkuöflun fyrir hugsanlegt álver Alcoa á Bakka við Húsavík. Landsvirkjun hefur þegar hafið borholurannsóknir að Þeistareykjum í samstarfi við orkufyrirtæki á Norðausturlandi.

Þorsteinn segir að til standi að bora tvær minni tilraunaholur í Gjástykki í haust og stefnt sé að því að bora stærri könnunarholur sem hugsanlega yrðu notaðar til orkuöflunar á næsta ári. Samkvæmt viljayfirlýsingu við Alcoa sé ætlunin að ljúka öllum rannsóknaborunum á jarðhitasvæðunum fyrir árslok 2008 þannig að þá geti legið fyrir hvort ráðist verði í samninga um orkuöflun fyrir álver.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×