Innlent

Biskup var búinn að blessa auglýsingar

Andri Ólafsson skrifar

Jón Gnarr, hugmyndasmiður auglýsingaherferðar Símans, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina í spaugilegu ljósi, fundaði með Biskupi Íslands, Hr. Karli Sigurbjörnssyni, áður en herferðin fór í loftið. Jón leiklas handrit auglýsingarinnar fyrir Biskup sem síðan gerði engar efnislegar athugasemdir við auglýsingarnar en bað Jón um að fara varlega og sýna tillitsemi. Í dag sagði biskup auglýsingarnar smekklausar. Jón Gnarr er undrandi á ummælum biskups.

Ummæli biskups sem Jón vitnar til voru höfð eftir Kari Sigurbjörnssyni á mbl.is fyrr í dag. Þar segir biskup auglýsinguna smekklausa, og að hann undrist að svo stórt fyrirtæki sem Síminn sé þurfi að leggjast svo lágt.

"Ég fór á fund biskups og fleira fólks og sagði frá auglýsingunni. Ég leiklas handrit hennar fyrir hann. Útskýrði tilgang hennar og hverju ég vildi ná fram. Hann sagðist skilja hvað ég væri að gera en bað mig um að fara varlega og sýna tillitsemi en gerði að öðru leiti ekki athugasemdir. Ég tel mig hafa sýnt tillitsemi og finnst að þarna sé ekkert ósmekklegt á ferðinni. Þess vegna koma ummæli biskups í fjölmiðlum í dag mér á óvart. Mér finnst hann taka full djúpt í árinni. Ég átti satt að segja alls ekki von á þessum viðbrögðum. Að mínu mati er þessi auglýsing fallegt listaverk, nútímalegt trúboð," segir Jón Gnarr.

Smellið á ,,Spila" til þess að horfa á auglýsinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×