Innlent

Friðargæsluliði heim frá Írak

Guðjón Helgason skrifar

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að kalla íslenska friðargæsluliða heim frá Írak þar sem Íslendingar vilji ekki taka þátt í stríðsrekstri þar.

Íslenskur friðargæsluliði hefur starfað í Bagdad í Írak frá 2005. Hann er fjölmiðlafulltrúi þjálfunarverkefnis Atlantshafsbandalagsins sem snýr að þjálfun yfirmanna í íraska hernum. Hlutverk fjölmiðlafulltrúans er að miðla upplýsingum út á við og sjá um innra upplýsinga- og fréttastarf NATO verkefnisins. Upplýsingafulltrúi ber titil majors. Fulltrúi friðargæslunnar hefur starfað innan græna svæðisins svokallaða í Bagdad þar sem alþjóðlega starfsliðið og her hefur haldið til. Það hefur þótt öruggt en samt sem áður skotmark í sprengju- og flugskeytaárásum.

Í október verður breyting á friðargæslu Íslendinga í Írak. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segist hafa tekið þá ákvörðun að ekki verið íslenskir friðargæsluliðar í Írak frá 1. október. Það sé í takt við það sem komi fram í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem harmi stríðsreksturinn í Írak.

Utanríkisráðherra segir að Íslendingar styðji heilshugar við lýðrisuppbyggingu í Írak en það verði gert með öðrum hætti en með stuðningi við stríðsrekstur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×