Innlent

4 milljarðar í djúpborunarverkefni

Íslendingar munu fyrstir þjóða hefja djúpborun en samningur þar að lútandi hefur verið undirritaður. Meðal þeirra sem taka þátt í samningnum er álfyrirtækið Alcoa sem leggur 300 milljónir króna verkefnisins.

Auk Alcoa standa landsvirkjun, hitaveita suðurnesja, orkuveita reykjavíkur og íslenska ríkið að verkefninu. Allt í allt mun verkefnið kosta um 4 milljarða króna og munu orkufyrirtækin þrjú leggja til um 700 til 1000 milljónir hvert og íslenska ríkið 350 milljónir.

Landsvirkjun mun bora fyrstu holuna strax á næsta ári á Kröflusvæðinu og síðar mun Orkuveita Reykjavíkur bora á Hengilssvæðinu og Hitaveita Suðurnesja á Reykjanesi.

Þetta verður í fyrsta sinn sem reynt er að bora og nýta svo djúpar holur á svo heitu svæði

Borað verður eina 4-5 kílómetra niður í jörðina og heitum vökva dælt upp sem síðan er notaður til að hita upp hreint vatn. Vökvanum er síðan skilað aftur niður í jörðina og er það gert vegna þess að ekki er vitað hvort hann er mengaður eða ekki. Hreina vatnið er síðan leitt í túrbínu sem býr til rafmagn og ættu úr einni djúpborunarholu að nást ein 50 megavött af orku. Það er tíu sinnum meiri orka en fæst úr grunnum holum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×