Innlent

Bæjarrónar í Mosfellsbæ álykta um brotthvarf Örvars af Arnarhóli

Það er Randver Þorláksson leikari sem túlkar hinn óborganlega Örvar. Mosfellsbæingar sakna hans sárt.
Það er Randver Þorláksson leikari sem túlkar hinn óborganlega Örvar. Mosfellsbæingar sakna hans sárt.

Á vikulegum fundi Bæjarrónafélags Mosfellsbæjar sem haldinn var á sveitakránni Ásláki í Mosfellsbæ föstudaginn 14. september 2007 var meðal annars fjallað um hina gerræðislegu aðför Ríkisútvarpsins að Spaugstofunni, og þá ákvörðun að reka Randver Þorláksson úr starfi.

Eins og landsmönnum er kunnugt hefur Randver m.a. túlkað persónu Örvars, sem í félagi við Boga hefur varpað nýju ljósi á stöðu róna í samfélaginu og mikilvægi þessa þjóðfélagshóps.

Á fundinum var borin fram eftirfarandi ályktun:

„Bæjarrónafélagið harmar þá aðför sem nú hefur verið gerð að félaga okkar og fulltrúa á Arnarhóli í Reykjavík um árabil. Samfélag róna er samofið íslensku þjóðfélagi. Félagið telur það óábyrgt af Ríkisútvarpinu að flæma Örvar af Arnarhóli, þar sem hann hefur átt sitt skjól til margra ára með félaga sínum Boga.

Bæjarrónafélag Mosfellsbæjar lýsir fullri ábyrgð á hendur RÚV, og telur það ábyrgðarhluta að skilja Boga eftir aleinan og yfirgefinn á Hólnum í vetur. Félagið krefst þess að þeir félagar Bogi og Örvar verði ekki aðskildir, og fái áfram að þola saman súrt og sætt, óáreittir, landsmönnum til gleði og rónum þessa lands til sóma."

Ályktunin var samþykkt samhljóða með glasaupplyftingu, segir í tilkynningu frá Bæjarrónafélaginu, sem er félagsskapur bæjarstarfsmanna í Mosfellsbæ.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×