Lífið

Sex Pistols koma saman á ný

Hlómsveitin árið 1976.
Hlómsveitin árið 1976. MYND/Getty

Breska pönkhljómsveitin Sex Pistols mun koma saman á ný til að fagna því að 30 ár eru liðin frá því að plata þeirra Never Mind the Bollocks kom út. Eftirlifandi meðlimir hljómsveitarinnar, þeir John Lydon, Steve Jones, Paul Cook og Glen Matlock munu koma fram á Brixton Academy í London þann áttunda nóvember næstkomandi.

Hljómsveitin hætti árið 1978 en kom aftur saman árið 1996 og fór í heimsreisu. Hún kom síðast saman árið 2003.

Never Mind the Bollocks, sem meðal annars hefur að geyma lögin God Save the Queen og Anarchy in the UK, olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út árið 1977. Í dag er platan þó ein virtasta innan pönksins og er talin hafa haft mikil áhrif á rokksöguna.

Í tengslum við tónleikana verða lögin God Save the Queen, Anarchy in the UK, Pretty Vacant og Holidays In The Sun gefin út á smáskífu.

Tímaritið NME hefur auk þess komið af stað herferð sem miðar að því að koma God Save the Queen á topp breska vinsældarlistans. Lagið var upphaflega bannað af breska ríkisútvarpinu en endaði engu að síður í öðru sæti vinsældarlistans á sínum tíma. Sumir héldu því fram að lagið hafi lent í fyrsta sæti en að tölum hafi verið hagrætt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×