Innlent

Breyttu hóruhúsi í bænahús

DV flutti fréttir af vændishúsarekstri í húsnæðinu sem nú hýsir blómlegt safnaðarstarf.
DV flutti fréttir af vændishúsarekstri í húsnæðinu sem nú hýsir blómlegt safnaðarstarf.

Mikil vakning er nú í safnaðarheimili í Ármúla 23 þar sem reglulega eru haldnar fjölmennar samkomur fólks sem hefur frelsast til guðstrúar. Flestir eiga safnaðarmeðlimirnir það sameiginlegt að hafa lent upp á kant við lögin fyrr á lífsleiðinni. Húsnæðið sem hýsir bænahúsið var mikið í fréttum í fyrra þegar því var slegið upp í DV að þar væri rekið vændishús.

Í þætti á kristilegu sjónvarpsstöðinni Omega er nú í spilun viðtal við einn forsprakka safnaðarheimilisins þar sem hann segir frá vændishúsarekstrinum. Í viðtalinu rekur hann sína sögu en hann glímdi við eiturlyfjadjöfulinn í mörg ár og gerðist margsinnis brotlegur við lögin.

Hann lýsir því meðal annars í spjalli við þáttastjórnandann að þegar hann losnaði úr fangelsi eftir að hafa afplánað margra ára fangelsisdóm hafi hann tekið til við að reka vændishús. Hann segir einnig að vændishúsið hafi verið í Ármúla 23, í sama húsnæði og nú hýsir safnaðarheimilið.

Hjá Fasteignamati ríkisins er húsnæðið nú skráð sem safnaðarheimili.

Forsprakkar safnaðarheimilisins vildu ekki tjá sig um málið þegar Vísir hafði samband, en Gunnar Þorsteinsson, kenndur við Krossinn, vitnar um að þar fari nú fram frábært starf. Gunnar hefur sjálfur predikað í bænahúsinu.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×