Erlent

Vilja banna nekt á Everest

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Það kostar á bilinu 600 þúsund til tveggja milljóna að klífa Everest fjall, sem er gífurleg fjárhæð í Nepal þar sem mánaðarlaun eru tæpar fimmtán þúsund krónur.
Það kostar á bilinu 600 þúsund til tveggja milljóna að klífa Everest fjall, sem er gífurleg fjárhæð í Nepal þar sem mánaðarlaun eru tæpar fimmtán þúsund krónur. MYND/AFP

Samtök fjallgöngugarpa í Nepal vilja banna nekt og tilraunir til ruddalegra meta á Everest fjalli, stærsta fjalli heims. Nepalskur fjallgöngumaður setti met í hæstu nektarsýningu á síðasta ári þegar hann beraði sig í nokkrar mínútur á toppi fjallsins, í 8.848 metra hæð og tíu stiga gaddi.

Ang Tshering forseti fjallgöngusamtaka landsins segir að strangar reglur verði að gilda til að aftra fjallgöngumönnum frá slíkum tilraunum.

Önnur umdeild tilþrif til að setja met á tindinum er meðal annars tilraun Hollendings til að komast á toppin eingöngu klæddur stuttbuxum.

Íbúar við Everest tilbiðja fjallið sem Guð og samtök fjallgöngumanna hafa farið fram á að ríkisstjórnin banni ruddalegar brellur á því.

Everest fjall hefur löngum verið aðdráttarafl þeirra sem vilja setja met, meðal annars elsta fjallgöngumanninum sem var 71 árs, yngsta fjallgöngumanninum sem var 15 ára, fyrsta einfætta fjallgöngumanninum og fyrsta blinda fjallgöngumanninum. Árið 2005 gifti síðan nepalskt par sig á tindi fjallsins.

Frá því fjallið var fyrst klifið af Edmund Hillary og Tenzing Norgay árið 1953 hafa þúsundir reynt að komast upp á þennan glæsta tind.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×