Innlent

Ragnar klökknaði á Gullna svaninum

Ragnar Bragason kvikmyndaleikstjóri klökknaði þegar tilkynnt var á kvikmyndahátíðinni í Kaupmannahöfn í gærkvöldi að mynd hans Börn hefði verið valin besta mynd hátíðarinnar og hlotið Gullna svaninn.

Copenhagen Film Festival er alþjóðleg kvikmyndahátíð í Kaupmannahöfn sem lauk með galakvöldi í gær. Eftir að hafa kynnt myndina var Ragnar á leið heim á föstudaginn en þá var því hvíslað að honum að hann skyldi endilega hinkra. Ragnar átti hins vegar ekki von á því að myndin fengi aðalverðlaun hátíðarinnar.

Ragnar segir dómnefndina hafa sérstaklega talað um hvernig skinið hefði í gegnum myndina að hópurinn allur hefði unnið hana af heilum hug.

Börn - og seinni myndin Foreldrar - verða sýndar í almennum bíóhúsum í Danmörku á næstunni og Ragnar segir svaninn gyllta áreiðanlega eftir að hjálpa til.

Ótal kvikmyndahátíðir eru haldnar á ári hverju, og Börn hefur farið á þær nokkrar og gengið vel. Raunar mun hún auk þess vera í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna ásamt Mýrinni.

Hátíðin í Kaupmannahöfn hefur síðustu tvö ár verið talin ein af fimmtíu mikilvægustu kvikmyndahátíðum heims.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×