Innlent

Fjórtán Litháar í haldi vegna þjófnaða í borginni

MYND/GVA

Fjórtán Litháar sem taldir eru tengjast umfangsmiklum þjófnaði úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu eru nú í haldi lögreglunnar. Sjö þeirra voru handteknir í gærkvöld og hefur lögregla farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim öllum. Hinir sjö voru handteknir í morgun og á eftir að taka ákvörðun um það hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim.

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að meint þýfi mannanna hafi fundist við húsleit á tveimur stöðum í austurbænum, hvort tveggja voru heimili manna sem tengjast málinu. Mun meira magn fannst í fyrri húsleitinni, þar á meðal snyrtivörur, fatnaður, tölvuhlutir og varningur úr stórmörkuðum. Einn úr hópnum var á leið úr landi og telur lögreglan víst að hann hafi ætlað að hafa hluta þýfisins með sér og selja það í heimalandinu.Ekki liggur fyrir hvort Litháarnir séu með dvalarleyfi hér á landi en verið er að kanna það.

Auðvelt að stela úr íslenskum verslunum

Ómar Smári segir að þessi tíðindi séu umhugsunarefni fyrir verslunareigendur og sýni eflaust nauðsyn þess að gæta betur að þjófnuðum. Fram hafi komið í yfirheyrslum lögreglu yfir erlendum þjófum að sú saga gangi þeirra á milli hversu auðvelt sé að stela úr íslenskum verslunum. Mennirnir gangi út úr búðum með vörur án þess að því sé veitt athygli. Slíkt leiði að sjálfsögðu til mikillar rýrnunar í verslunum sem aftur geti leitt til hærra vöruverðs. Því sé umhugsunarefni hvort ekki þurfi að vera meira á varðbergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×