Erlent

Greiðir milljónir vegna ólöglegrar dreifingar á tónlist

Bandarískur dómstóll hefur dæmt Jammie Thomas, þrjátíu og tveggja ára gamla konu frá Minnesota til að greiða því sem nemur fjórtán milljónum íslenskra króna fyrir að dreifa tónlist á Netinu.

Sektin hefði þó getað orðið mun hærri því tónlistarútgefendur segja að Jammie hafi dreift mun meira af tónlist en hún var dæmd fyrir.

Jammie er fyrsta manneskjan sem ákvað að berjast fyrir rétti eftir að hafa verið sökuð um að dreifa tónlist ólöglega á Netinu. Á hverju ári er tónlist dreift ólöglega frá milljónum heimila og tónlistarútgefendur telja að þeir verði fyrir verulegum tekjumissi vegna þessa.

Tuttugu og sex þúsund mál hafa verið höfðuð vegna ólöglegrar tónlistardreifingar á Netinu en hingað til hafa flestir reynt að leysa málið með því að greiða sekt.

Jammie Thomas gat hins vegar ekki hugsað sér að gefast upp fyrir tónlistarframleiðendum mótþróalaust. Það kostar hana sekt sem mun taka hana alla ævina að greiða, segir lögmaður hennar.

Bandarískir tónlistarútgefendur segja að almenningur hafi skilning á dómnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×