Erlent

Hátt í fimm hundruð handteknir í Kaupmannahöfn

Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók í dag hátt í fimm hundruð mótmælendur þegar þeir reyndu að leggja undir sig hús sem þeir vilja fá í stað ungdómshússins sem rifið var í vor.

Það var hópur fólks sem kallar sig aðgerðahópinn G-13 sem stóð fyrir mótmælunum í dag. Hópurinn vill fá auð hús sem standa við Grøndalsvænge Allé í suðvesturhluta Kaupmannahafnar til afnota í stað ungdómshússins sem rifið var síðastliðið vor á Norðurbrú. Fyrirhugað er að reisa íbúðir á svæðinu.

Mótmælin voru auglýst á heimsíðu hópsins með nokkrum fyrirvara og áttu að fara friðsamlega fram. Tólf göngur fóru á stað fyrr í dag frá stöðum víðs vegar um borgina í átt að svæðinu. Eftir að hópurinn kom að þangað sauð fljótlega upp úr milli mótmælendanna og lögreglu. Lögregla beitti táragasi á hópinn og hafa hátt í fimm hundruð manns verið handteknir í átökunum. Lögreglan telur að á milli þrjú og sex þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×