Innlent

AFL segir GT verktaka hafa hótað og mútað erlendum verkamönnum

Sverrir Mar Albertsson
Sverrir Mar Albertsson

Í tilkynningu frá starfsgreinafélagi Austurlands, AFL, er því haldið fram að starfsmenn GT verktaka hafi í morgun hótað verkamönnum sem unnið hafa fyrir fyritækið undanfarið.

Í tilkynningunni er því haldið fram að starfsmenn GT verktaka, eða samstarfsaðila þeirra, hafi í morgun gengið á fund þrettán verkamanna sem hafa haldið því fram að hafa fengið of lág laun fyrir vinnu sína, og hótað þeim öllu illu þekkist þeir ekki tilboð um að fara úr landi.

Þá er því einnig haldið fram að mönnunum hafi verið boðið vín og peningar til að láta framburði sína niður falla og halda úr landi.

Tíu af þessum þrettán verkamönnum er sagðir hafa þekkst þetta boð og haldið suður í dag og bíði nú þess að fara úr landi.

Lögmaður AFL hefur kært málið til lögreglu.

Framkvæmdastjóri AFL, Sverrir Albertsson, býst við því að afskiptum félagsins af þeim mönnum sem hafi farið suður sé lokið.

Síðustu fregnir hans af verkamönnunum voru frá Keflavík þar sem hann segir að mennirnir séu nú, peningalausir og svangir.

"Vínið hafa þeir fengið, en peningana ekki," segir Sverrir.

Hann segir að bæst hafi í hóp þeirra manna sem tilkynnt hafi lögleg vinnubrögð GT verktaka við launagreiðslur og í þeim hóp sé hugur, samstaða og ekkert fararsnið.

"Þeir segjast tilbúnir að vera hér fleiri mánuði og koma þessu máli í höfn," segir Sverrir en AFL mun sjá um uppihald þeirra á meðan því stendur.

Ekki náðist í neinn frá GT verktökum við vinnslu þessarar fréttar,




Fleiri fréttir

Sjá meira


×