Innlent

Bjóst við árásum í kjölfar samstarfsslita

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. MYND/Vilhelm

Björn Ingi Hrafnsson segist hafa vitað fyrirfram að hann yrði að sitja undir ávirðingum sjálfstæðismanna í kjölfar þess að hann ákvað að sprengja meirihlutann í borgarstjórn í dag. Sigurður Kári Kristjánsson sagði á Vísi að leitun væri að spilltari og siðlausari stjórnmálamanni en Birni Inga og Björn Bjarnason kallar hann „pólitískan loddara" á heimasíðu sinni.

„Ég vissi að þannig yrði það," segir Björn Ingi aðspurður út í ummælin sem um hann hafa fallið í dag. „Maður slítur svona samstarfi ekki að gamni sínu og ég vissi vel að áhrifamikil öfl í þjóðfélaginu yrðu afar ósátt við þessa niðurstöðu," segir hann og bætir því við að hann taki svona ummæli nærri sér en að þau dæmi sig sjálf. „Ég held að það sé leitun að jafn ótrúlegum ummælum," segir hann og á við ummæli Sigurðar Kára.

Björn segir það rétt að Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og stjórnarformaður Orkuveitunnar hafi setið á fundinum þegar ákveðið var að mynda nýjan meirihluta. „Hann kíkti heim til mín í morgun," segir Björn Ingi. Aðspurður hvaða hlutverki Alfreð hefði gegnt í málinu segir Björn: „Hann hafði rætt við þau held ég," segir Björn Ingi og vísar þar til nýrra samstarfsmanna sinna í meirihlutanum. „Hann er gamall vinur sem kann ýmislegt fyrir sér í pólitík en hann gegndi engu sérstöku hlutverki í þessu máli."

„Ég er bjartsýnn á að okkur gangi vel að vinna að öllum málum," segir Björn Ingi aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að nýjum meirihluta takist að komast að niðurstöðu í málefnum Orkuveitunnar og REI. „En ég vil ekki ræða einstök mál á þessari stundu. Björn Ingi segir að lokum að deilurnar um REI hafi ekki verið höfuðástæða þess að hann hafi ákveðið að slíta samstarfinu við sjálfstæðismenn heldur hafi hann metið það sem svo að deilurnar innan borgarstjórnarflokks þeirra, sem komu honum mjög á óvart, hafi gert það að verkum að grunndvöllur fyrir samstarfinu við þau hefði verið brostinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×