Innlent

Burt með kvóta á innfluttar landbúnaðarvörur

Innflytjendur á ostum eru ósáttir við landbúnaðarráðherra og segja allt of skammt gengið í breytingum á tollkvótum fyrir innfluttar landbúnaðarvörur. Breytingarnar eiga að tryggja að innflytjendur geti ekki boðið í kvóta til þess eins að halda honum frá samkeppnisaðilum. Innflytjendur á erlendum gæðaostum segja að kvóti sé úrelt aðferð til að stýra neyslu og hann bitni bara á neytendum.



Kerfið sem viðhaft hefur verið hér á landi við innflutning á landbúnaðarvörum hefur tryggt að ríkið hefur alltaf fengið hæsta mögulega verð fyrir hvert kíló. Útboð hefur verið haldið á innflutningskvóta fyrir innfluttar landbúnaðarvörur og þeir sem hafa boðið hæst hafa fengið að flytja inn slíkar vörur.

Rúnar Gíslason, einn afkastamesti ostainnflytjandi landsins og matreiðslumeistari hjá Kokkunum veisluþjónustu, segir að þetta sé ekki eini gallinn við kerfið.

Nokkrir innflytjendur á ostum sögðu í vor að tilboðsgjafar gætu haldið kvóta í gíslingu með háum tilboðum í hann sem þeir síðan sinntu engu að sækja eða greiða fyrir.

Þannig ýttu þeir frá sér samkeppni með því að hindra þá að nálgast kvóta sem ætluðu sér sannarlega að flytja inn landbúnaðarvörur og koma þeim á markaðinn. Í vor bauð fyrirtæki 207 milljónir króna í kvóta en innleysti hann ekki. Rúnar segir að svona nokkuð hafi verið gjörsamlega ófært.

Landbúnaðarráðuneytið ætlar nú að bregðast við þessu með því að tilboðsgjafar verði að ábyrgjast að þeir geti staðið við tilboðið. Þeir þurfa líka að leysa kvótann til sín með greiðslu innan sjö daga frá því að niðurstaða útboðs er ljós.

Rúnar Gíslason, ostainnflytjandi, segir að þetta sé vissulega bót. Hann vill samt kvótann sjálfan út í hafsauga og er ekki sáttur við við Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra.

Rúnar vonast til að landbúnaðarráðherra breyti þessu á næstu mánuðum og leggi kvótann niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×