Innlent

Tölva styttir ferðatíma um götur Reykjavíkur

Ferðatími um götur borgarinnar styttist með nýjum tölvum sem tekið hafa yfir stjórn umferðarljósa á helstu gatnamótum. Tölvurnar skynja umferðarþungann og skipta yfir í grænt og rautt til að skapa sem best flæði.

Menn aka ekki lengi um götur Reykjavíkur án þess að lenda á rauðu ljósi enda er 116 gatnamótum í borginni stjórnað með umferðarljósum. Til að stytta biðtímann hafa grænu bylgjurnar lengi verið við lýði sem gefa til dæmis færi á að aka alla Sæbrautina á grænu ljósi ef vissum hraða er haldið. Græna bylgjan á Sæbraut miðar við 57 kílómetra hraða, á Bústaðavegi í Fossvogi er best að halda 50 kílómetra hraða, á Höfðabakka þarf 58 kílómetra hraða til að halda grænu bylgjunni, sama hraða þarf á Sæbraut við miðborgina, á Bústaðavegi við Öskuhlíð þarf 50 kílómetra hraða, bylgjan á Breiðholtsbraut miðar við 58, Hringbraut og Miklubraut 57, Kringlumýrarbraut 60, og á Suðurlandsbraut er miðað við 50 kílómetra hraða. Stýring ljósanna hefur fram til þessa verið forrituð fyrirfram í kassa á hverjum gatnamótum en nú er búið að tengja stjórnkassana saman með ljósleiðara inn í eina tölvu. Sú er læst niðri í kjallara í Skúlatúni tvö í eldtraustu rými. Við þessa einu tölvu er þegar búið að tengja 36 gatnamót í Reykjavík og þrenn í Hafnarfirði. Til að tölvan þjóni ökumönnum sem best hafa nemar verið fræstir niður í malbikið út um alla borg sem mata tölvuna samstundis á upplýsingum um bílafjöldann hverju sinni. Ef tölvan skynjar vaxandi umferðarþunga bregst hún við með því að láta grænu bylgjuna lifa lengur á viðkomandi umferðaræðum til að lágmarka biðtíma ökumanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×