Fótbolti

Númer Stefáns hjá Norrköping aldrei notað aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Þórðarson, leikmaður Norrköping.
Stefán Þórðarson, leikmaður Norrköping. Mynd/Heimasíða IFK Norrköping

Stefán Þórðarson kvaddi í dag stuðningsmenn Norrköping er liðið lék sinn síðasta heimaleik á tímabilinu.

Norrköping tapaði að vísu fyrir Jönköping, 1-0, en liðið er þegar búið að tryggja sér sigur í deildinni.

Stefán var kvaddur með virktum en fyrir leikinn var það tilkynnt að númerið 18 yrði aldrei aftur notað hjá félaginu. Það væri númer Stefáns um ókomna tíð.

„Við komum aldrei til með að gleyma þér," segir á heimasíðu Norrköping. „Treyja númer átján er þín að eilífu."

Fjöldi Íslendinga voru að spila með liðum sínum í efstu tveimur deildum Svíþjóðar í dag.

Ólafur Ingi Skúlason lék allan leikinn fyrir Helsingborg sem steinlá, 4-0, fyrir Gefle á útivelli.

Þeir Gunnar Þór Gunnarsson og Heiðar Geir Júlíusson komu báðir inn á sem varamenn er lið þeirra, Hammarby, tapaði 1-0 á útivelli fyrir nýliðum Trelleborg.

Með sigrinum komst Trelleborg þremur stigum frá botnliði Brommapojkarna en Hammarby er í sjöunda sæti deildarinnar og Helsingborg í því áttunda.

Kalmar komst á topp sænsku úrvalsdeildarinnar í dag með 2-1 sigri á Brommapojkarna á útivelli í dag. Íslendingaliðin IFK Gautaborg og Djurgården eru tveimur stigum á eftir en eiga bæði leik á morgun.

Sigurður Jónsson og lærisveinar hans í Djurgården mæta Halmstad á útivelli. Gautaborg á erfiðan leik fyrir höndum gegn AIK á Råsunda-leikvanginum.

Í 1. deildinni unnu Ari Freyr Skúlason og félagar í Häcken 1-0 sigur á Enköping. Ari Freyr lék allan leikinn.

Hið sama má segja um Helga Val Daníelsson en lið hans, Öster, vann 3-0 sigur á Mjällby.

Þá töpuðu meistararnir í Norrköping fyrir Jönköping á heimavelli, 1-0. Stefán Þórðarson og Garðar Gunnlaugsson léku allan leikinn fyrir Norrköping.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×