Innlent

Vopnaframleiðendurnir óttast ekki mótmæli Íslendinga

Andri Ólafsson skrifar
Á meðal þess sem BAE framleiðir er þessi skriðdreki.
Á meðal þess sem BAE framleiðir er þessi skriðdreki.

„Við erum hér í liðsstyrkingu (team building),“ segir John Suttle, starfsmannastjóri hins umdeilda vopnaframleiðslufyrirtækis BAE sem fundar þessa dagana á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík.

Hann segir þrjátíu af háttsettustu yfirmönnum fyrirtækisins vera hér á landi og að fundað verði fram á föstudag.

BAE er eitt stærsta vopnaframleiðslufyrirtæki heims. Það er afar umdeilt og hefur ítrekað verið í fréttum undanfarin misseri í Bretlandi, meðal annars vegna aðildar sinnar að mútumálum í Sádi-Arabíu.

Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segist ekkert sérlega hrifinn af veru forsvarsmanna BAE hér á landi. „Þetta eru að mínu mati mun hættulegri menn en þeir sem hugðust taka þátt í hinnu miklu klámráðstefnu," segir Stefán sem minnir á að hópur manna úr klámiðnaðinum sem hugðist koma í hópeflisferð hingað til lands hætti við vegna viðbragða almennings.

„Ég minnist þess sérstaklega að þegar klámráðstefnumálið kom upp fór þáverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fram á það við lögreglu að hún rannsakaði hvort þeir aðilar væru viðriðnir lögbrot í heimalöndum sínum. Má maður þá ekki spyrja hvort ekki sé jafnvel enn frekara tilefni til hins sama nú," spyr Stefán.

John Suttle frá BAE segist ekki eiga von á mótmælum við dvöl sinna manna hér á landi. „Ég vona að fólk geri sér grein fyrir því að við erum aðallega í því að framleiða búnað sem ver hermenn gegn árásum. Slagorð okkar er: Við verjum þá sem verja okkur," segir Suttle.

Suttle segist hrifinn af fegurð Íslands og vonast til að geta skoðað landið nánar áður en heim verður haldið í lok vikunnar. Hins vegar verði meginþorra vikunnar eytt í fundarherbergjum Nordica Hilton hótelsins.

 

 

 

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×