Innlent

Segir fleiri löggur en gesti hafa mætt í afmæli Fáfnis

Jón Trausti Lúthersson segir að allur fjöldi lögreglumanna sem vaktaði afmæli Fáfnis á laugardag hafi verið sóun á peningum skattborgara.
Jón Trausti Lúthersson segir að allur fjöldi lögreglumanna sem vaktaði afmæli Fáfnis á laugardag hafi verið sóun á peningum skattborgara. MYND/VÍSIR.IS

Jón Trausti Lúthersson, einn af forsprökkum mótorhjólaklúbbsins Fáfnis, segist fullviss um að fleiri löggur en boðsgestir hafi verið í 11 ára afmæli klúbbsins sem haldið var í félagsheimli Fáfnis við Hverfisgötu á laugardaginn.

Lögreglan var mikið viðbúnað en hún hefur staðið í stórræðum undanfarna daga vegna afskipta sinna af mótorhjólaklúbbnum. Á fimmtudaginn var framkvæmd húsleit í félagsheimilinu við Hverfisgötu og á föstudaginn var átta norskum og dönskum meðlima Vítisenglanna, sem ætluðu að mæta á afmælið, vísað frá landi.

"Ég er ekki alveg með fjölda afmælisgestanna á hreinu en er klár á því að löggurnar voru fleiri en þeir. Ég hálfvorkenndi þeim þar sem þeir húktu í sendibílnum alla nóttina og hreyfðu sig ekki neitt," segir Jón Trausti og bætir við að veislan hafi farið afar friðsamlega fram.

Boðið var upp á grillmat í veislunni, bæði lambalundir og piparsteik. "Ég bauð ekki upp á neinar pylsur ef þú ert að spyrja að því. Og til að hafa það á hreinu þá gaf ég löggunni ekki neitt að éta," segir Jón Trausti hlæjandi.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við Vísi að þó nokkur viðbúnaður hefði verið af hálfu lögreglunnar vegna afmælisins. Hann vildi þó ekki gefa upp hversu margir lögreglumenn hefðu verið á vakt í þessari tilteknu aðgerð.

Ásgeir Þór sagði að síðustu mennirnir á vegum lögreglunnar hefðu yfirgefið svæðið um fimm leytið og satðfesti orð Jóns Trausta um að lögreglan hefði engin afskipti haft af afmælisgestum. "Við áttum nokkur samskipti við þá en þau fóru öll kurteislega fram," segir Ásgeir Þór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×