Innlent

Hollvinir Ríkisútvarpsins: Mikil hætta á sjálfsritskoðun gagnvart Björgólfi

Þorgrímur Gestsson er formaður Hollvina Ríkisútvarpsins.
Þorgrímur Gestsson er formaður Hollvina Ríkisútvarpsins.

Stjórn Hollvina Ríkisútvarpsins mótmælir harðlega því samkomulagi sem tekist hefur á milli Ríkisútvarpsins og Björgólfs Guðmundssonar. Fyrir helgi skuldbatt Björgólfur sig til þess að verja allt að 150 milljónum króna næstu þrjú árin til að efla leikna innlenda dagskrárgerð.

Í tilkynningu frá Hollvinasamtökunum segir að það sé stórvarhugavert að einn af auðugustu athafnamönnum landsins skuli öðlast ítök í starfsemi Ríkisútvarpsins með þessum hætti og líkur á að það muni skerða möguleika starfsfólks RÚV til að fjalla um málefni fyrirtækja sem honum tengjast. „Það er ekkert hægt að blanda saman einkarekstri og opinberum rekstri í fjölmiðlun frekar en í rekstri orkufyrirtækja," segir Þorgrímur Gestsson formaður Hollvinasamtakanna í samtali við Vísi. „Mér sýnist þetta bara vera skref í átt að því að selja Ríkisútvarpið," bætir hann við.

Í tilkynningu Holvinasamtakanna segir jafnframt að yfirlýsingar Björgólfs sjálfs og Þórhalls Gunnarssonar dagskrárstjóra um að Björgólfur sjálfur komi ekki nálægt efnisvali séu barnalegar og beri ekki vott um mikla þekkingu þessara manna á starfsháttum fjölmiðla og eðli þeirra. „Ég er ekki að væna Björgólf um neitt. Fyrir mér snýst þetta um hættuna á sjálfsritskoðun frekar en beina íhlutun," segir Þorgrímur. Hann óttast að þetta samkomulag geti haft þau áhrif að í framtíðinni veigri fréttamenn Ríkisútvarpsins sér við því að fjalla með gagnrýnum hætti um Björgólf Guðmundsson og málefni tengd honum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×