Lífið

Edduverðlaun Ragnars Braga týnd

MYND/Fréttablaðið
Ragnar Bragason leikstjóri og margfaldur Edduverðlaunahafi varð fyrir því óláni á hátíðinni á sunnudaginn að týna tveimur verðlaunastyttunum sínum.

,,Jújú, ég er nú ekki búinn að gera stórleit að þeim. Hef ekki haft tíma til þess." sagði Ragnar, sem reiknaði reyndar ekki með að þær hefðu farið langt. ,,Ég held þær séu bara bakvið með öðrum óskilamunum."

,,Það er svo erfitt að burðast með stytturnar sínar, það eru svo mikil þyngsl í þessu." sagði Ragnar, sem skildi stytturnar eftir á borðinu sínu á meðan á samkvæminu stóð. Þegar var svo komið að því að fara heim voru tvær þeirra horfnar.

Ragnar reiknar þó ekki með að verðlaunagripaþyrstir þjófar hafi verið þarna á ferð. ,,Ég hef ekki trú á því að menn fari að stela svona. Það er frekar brjóstumkennanlegt að vera með verðlaunagrip sem maður á ekki." sagði Ragnar og hló.

Maður gæti ímyndað sér að Ragnar væri að verða uppiskroppa með pláss fyrir gripina, en hann segir svo ekki vera. Hann eigi, með þessum týndu, ekki nema svona þrjár styttur þó hann hafi unnið til verðlaunanna sex eða sjö sinnum. Ástæðan er sú að oft hafi hann deilt verðlaununum með samstarfsfólki. ,,Annars er ég ekki fyrir að hafa hrúgur að verðlaunastyttum heima hjá mér. Maður lætur duga að hafa tvo eða þrjá gripi á stangli." segir Ragnar að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.