Skoðun

Beastiae publicas

Jónas Bjarnason skrifar
Umræðan

Orkumál

Við mörlandar höfum gjörnýtt landsins gæði til að geta lifað af. Bændur hirtu alla snærisspotta og létu sauðféð naga alla bletti, en sjálfir felldu þeir skógana. Svo grófu menn sig niður í jörðina, bókstaflega, með því að byggja torfbæi djúpt og refta með rekaviði og þakið úr torfi. Þannig drógu menn svörðinn yfir sig eins og sæng og bæir líktust þúftum. Útlendir menn dáðust að nýtingunni. Eldsneyti var mór og tað, en eftir að kolin komu breyttist allt og varð kolvitlaust. Fyrir 100 árum var mikil fátækt og örfá heimili hæf til að hýsa stórmenni.

Heimspekingurinn Wittgenstein undraðist þá, að menn gætu yfirleitt lifað í landinu. Á ferð um Suðurland gat hann skermað sig af frá glaumi og glundri menningarinnar og hugsað skýrt. Áreitis frá kapphlaupi iðnjöfra gætti ekki og Baróninn frá Hvítárvöllum boðaði meiriháttar hagræðingu í landbúnaði og fékk engu framgengt; dapurleg örlög hans eru samtvinnuð sögu Íslands. Já, hagræðing í landbúnaði var dauð hugmynd og er að hluta enn. Og Einar Benediktsson lifði á rangri öld með Titanfélagið. - En breytingar voru í nánd, höfn í Reykjavík og gufuskip. En svo breytti jarðvarminn öllu. Á millistríðsárunum hófu menn lagningu leiðslna fyrir heitt vatn frá Reykjalundi til bæjarins og það var sem hendi væri veifað. Jarðhiti til að kynda heila borg var bylting. Svo tók Jóhannes Zoëga í HR við og bauð Reykvíkingum upp á ódýrasta heitavatn sögunnar. Saga Íslendinga er íbland orkuannáll.

Orkuútrás og peningainnrásOrkan er háð ýmsum lögmálum, sem eru torskiljanleg. Sérstaklega er fyrirbærið entrópía dularfullt; stuðull sem varðar orkutap við flutning frá einu ástandi til annars. Hjálmari Árnasyni fv. þingmanni var næsta ókunnugt um þennan tapstuðul og rak áróður fyrir vetni sem eldsneyti. Það virtist undursamlegt, útöndun hreint vatn. En í reynd gefur það nýtingu orku 25% og engar tilsnikkanir duga til að breyta lögmálum. Nýorkufyrirtæki geta svosem prófað vetnisbíla með niðurgreiddu rafmagni og svo reiknað út tapið. - En nú er upphafinn nýr vísdómur. Ísland hefur getið sér orðs sem fyrirmynd í nýtingu jarðvarma og kaupahéðnar tala trútt og ferðamönnum er ekið til Geysis. Iðnaðarráðherra telur, að Íslendingar geti fjárfest í jarðvarma í Filippseyjum og Indónesíu fyrir 200 milljarða á ári í 10 ár. Jahérna! Fjórföld fjárlög Íslendinga. En það er tilviljun og aukaatriði, að þessi lönd eru þau spilltustu í Asíu.

Á Filippseyjum hefur helmingur landsmanna innan við 2 dollara á dag og fæstir eru tengdir rafmagni. Ráðherrann hefur vísast slegið pesosinn vitlaust inn í tölvu eða reiknað með álframleiðslu. Hafa pílárar Geysis Green Energy (GGE), lítillætið leynir sér ekki, reiknað með kaupmætti fólksins eða notað tölur frá Alfreð Þorsteinssyni um risarækjueldi sem aukaafurð? Með því að nýta jarðgufu til rafmagnsframleiðslu er nýting heil 15% og 85% renna í sjóinn, en tæpast brúka menn kyndingu í hitabeltinu. Vel má vera að iðnaðarráðherra, sem bloggaði sjálfan sig sem pólitískt villidýr, hafi áttað sig á þessu í hanastélum og hæfir þá skel kjafti. Gera verður greinarmun á innfæddum og verkfræðingunum á Bæjarásnum með kaupréttarsamninga. Ætla menn sér að næla í þróunaraðstoð eyjaskeggjanna í kompaníi með GGE? Það væri vangadans við krókódíla.

Vilhjálmur Bjarnason aðjúnkt spurði hvað það væri, sem verið er að selja. Óefnislegur mannauður upp á 10 milljarða? Hver er þess umkominn að hantera með og selja erfðagóss Jóhannesar Zoëga? Er það kannski kaupréttaraðallinn? - Höfum við sérstakan orkuforseta, sem slær um sig í austrinu? Eða einhverjir úr kaupréttarliðinu eða vetnisforkólfar? Þegar rætt er um orku og umhverfi er stutt í eldsneyti, en engin fær leið er til að framleiða það með rafmagni. Losun tvísýrings í löndunum er vegna brennslu jarðefna í farartækjum og varðar ekkert áform OR og GGE. Forsetinn hefur misskilið orkuframtak Íslendinga og handtak Pútins og íslensks prófessors nýlega í Moskvu. Ný gufuvirkjun jafngildir ekkert minni losun. - Ekki vantaði hávaðann vegna vetnismála þegar fv. iðnarráðherra ók um í vetnisbíl, en sagði nýlega í sjónvarpi, að orkubransinn væri haldinn flottræfilshætti.

InnsláttarvillaRektor HÍ setur honum það markmið að verða einn af 100 bestu heims. Greinileg kommuvillu eins og hjá Össuri, nema markmiðin séu þeim mun heimóttarlegri í heimspekideild og fornritagrúski. Fyrst er að komast í hóp 1000 bestu. Helstu háskólar hafa allir fjölda tilraunastofa í vísindum og sæg af fræðimönnum. En í HÍ stika menn auða gangana, en eru þó að sækja í sig veðrið með nýjum greinum. Í uppsiglingu er LÍÚ-deild, en þegar er sérstök staða í kvótarétti, greidd af LÍÚ og er sjálfstæð. Síðan má benda á kennslu í skottulækningum, en þegar eru fv. kennarar farnir að selja snyrtivörur, sem fólk á að telja að séu lyf, við öllum kvillum í liðum og erfiðu þvagláti. Íhaldssamir læknar viðurkenna ekki óhefðbundin lyf úr íslenskri náttúru og verður því deildin að vera sjálfstæð. Einn selur megrunarlyf, eins konar vítamínbætt alfa alfa. Megrunarkúrar eru nú vel við hæfi þegar einstakir menn eru að gera allt vitlaust í orkumálum.

Höfundur er efnaverkfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×