Innlent

Kona getur ekki verið herra og karl ekki frú

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli ríkisstjórninni að undibúa stjórnarskrárbreytingu og breytingu lögum til þess að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið. Jafnframt sé nauðsynleg að lagafrumvörp verði lögð fram hið fyrsta.

 

Í greinargerð með tillögunni er ekki stungið upp á nýju orði í stað ráðherra en Steinunn Valdís bendir á að leita mætti eftir tillögum hjá Íslenskri málnefnd og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá kæmi vel til greina að auglýsa samkeppni um verðugt orð yfir embættin sem konur hljóti að gegna í æ ríkari mæli á komandi árum.

 

Í geinargerðinni er enn fremur bent á að karlar hafi haslað sér völl í hefðbundnum kvennastéttum og þar hafi starfsheitum verið breytt. Þannig hafi hjúkrunarkonur orðið hjúkrunafræðingar og fóstrur leikskólakennarar. Um eðlilega og sjálfsagða leiðréttingu hafi verið að ræða. Það sé því í fyllsta samræmi við þessa þróun að breyta einnig starfsheitum í hefðbundnum karlastéttum þannig að konur geti borið þau. Ráðherraembætti eigi ekki að vera eyrnamerkt körlum.

 

Steinunn Valdís telur að það særi ekki málkennd manna þótt konur séu forsetar, kennarar eða forstjórar en öðru máli gegnir um orðið herra. ,,Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að kona sé herra, heldur er það merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú," segir í greinargerð með tillögu Steinunnar. Það sé því mikið réttlætismál að þessum starfsheitum verði breytt. Sömu rök eigi við um stöðuheitin sendiherra og skipherra sem væntanlega séu einnig formlega opin fyrir konur.

 

Steinunn Valdís bendir á að í stjórnarskránni sé talað um ráðherra. ,,Þar sem um brýnt mál er að ræða þarf að athuga hvort hægt sé að breyta starfsheitinu strax á þessu þingi með nauðsynlegum lagabreytingum þó að breytingarnar á stjórnarskránni taki gildi síðar," segir enn fremur í greinargerð þingkonunnar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×