Innlent

Vinnuveitandi ruddist inn á fund í Vélstjóra- og málmiðnaðarfélaginu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Örn Friðriksson segir erlendu starfsmennina vissulega vera í sínu félagi.
Örn Friðriksson segir erlendu starfsmennina vissulega vera í sínu félagi.

„Eigandi fyrirtækisins Stál í Stál ruddist ásamt fylgdarmanni inn á fund sem Vélstjóra- og málmiðnaðarfélagið hélt með erlendum starfsmönnum, í þeim tilgangi að reka út þá starfsmenn sína sem sóttu fundinn," segir Örn Friðriksson, formaður VM.

„Hann var ekki beinlínis með hótanir, en vildi að þeir færu út og sagði að þeir ættu ekkert erindi á fundinn," sagði Örn. Hann segir að maðurinn hafi fullyrt að starfsmennirnir væru aðilar að öðru stéttarfélagi. „En þeir eru í okkar félagi. Það er alveg á hreinu," segir Örn í samtali við Vísi.

Örn segir að Pólverjarnir hafi engan áhuga haft á því að yfirgefa fundinn, enda hafi þeir haft ýmsar spurningar sem þeir vildu bera upp. „Þetta var mjög góður fundur. Það var ýmislegt sem mennirnir vissu ekki um réttindi sín. Til dæmis um launagreiðslur í veikindum, orlofslaun og fleira," segir Örn.

Örn bendir einnig á að í sumum tilfellum væru mennirnir ekki að fá greitt samkvæmt réttum launatöxtum. „Þeir spurðu líka um iðnréttindi. Sumir þeirra eru með réttindi úr heimalandi sínu en eru samt að fá greitt hérna sem aðstoðarmenn," bætir Örn við.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×