Innlent

Umsögn borgarráðs í nektardansmálinu er ólögmæt

BrynjarNíelsson.
BrynjarNíelsson.

„Þetta er svo vitlaust að það nær varla nokkurri átt," segir Brynjar Níelsson, lögmaður eiganda Nektarklúbbsins Bóhem, aðspurður hvað honum finnist um umsögn borgarráðs frá því í dag en í henni er lagst gegn því að starfssemi nektardansstaða sé leyfð í Reykjavík. Brynjar segir einn allsherjar miskilning vera á ferðinni því borgarráði sé alls ekki ætlað að byggja umsögn sína á því hvort þeim sem í ráðinu sitja sé vel eða illa við starfsemi af þessu tagi.

„Borgarráð heldur að því sé ætlað að veita einhverja undanþágu í þessu máli. Það er bara ekki þannig. Ráðið er bara umsagnaraðili í málinu og þeim er eingöngu ætlað að veita umsögn um hvort staðsetning staðarins sé í samræmi við skipulag borgarinnar," segir Brynjar. „Þessu fólki er ekki ætlað að ákveða hvort nektardans sé vondur eða góður," bætir hann við og segir ennfremur að af þessu leiði að umsögn borgarinnar sé ólögmæt. „Þetta eru ólögmæt sjónarmið vegna þess að þeim er ekki falið þetta mat í lögunum."

Í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald segir í 10. grein að sex aðilum sé ætlað að veita leyfisveitanda umsagnir um hvort veita eigi stað rekstrarleyfi. Þar segir að sveitarstjórnum, sem er borgarráð í þessu tilviki, sé ætlað að veita umsögn sem staðfestir að „afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé í innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um." Brynjar segir að þetta sé eina hlutverk borgaráðs í ferlinu. „Alveg eins og slökkviliðsstjóra er falið að segja til um hvort brunavarnir séu fullnægjandi og lögreglu er falið að veita umsögn um hvort dyravarsla sé nauðsynleg."

Minnihlutinn í borgarráði virðist taka undir með Brynjari því á fundinum bókaði minnihluti að þrátt fyrir að þar á bæ hafi menn skömm á nektardansstöðum sé ekki hægt að horfa fram hjá því að starfsemin sé heimil samkvæmt lögum og á meðan svo sé „leikur mikill vafi á því að borgarráðsmenn geti tekið ákvarðanir með þeim hætti sem lagt er til í þessu máli. Lögfræðingar borgarinnar hafa bent á að slík ákvarðanataka gæti bakað broginni skaðabótaskyldu."

Brynjar segir ekki ljóst á þessum tímapunkti hvort umbjóðandi hans ætli sér að leita réttar síns í þessu máli.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×