Innlent

Vill að lágmarki þrjár milljónir fyrir auglýsingu í Áramótaskaupi

Andri Ólafsson skrifar

"Lágmarksverð er þrjár milljónir," segir Páll Magnússon útvarpsstjóri sem ætlar að brydda upp á þeirri nýbreytni þetta árið að gefa auglýsendum kost á að bjóða í 60 sekúndna auglýsingatíma í miðju áramótaskaupinu á gamlárskvöld.

Orðrómur um þetta var farinn að kvisast út í netheimum eftir að almannatengillinn Ómar R. Valdimarsson bloggaði um að fyrirhugað væri að selja auglýsingar í áramótaskaupið í ár.

Páll Magnússon staðfesti þetta í samtali við Vísi í kvöld en útskýrði að um tilraun væri að ræða. Auglýsendum væri boðið að gera tilboð í eitt 60 sekúndna auglýsingahlé og mun það falla í skaut hæstbjóðenda.

Páll undirstrikar að ekki verði hlustað á tilboð undir þremur milljónum.

"Áramótaskaup Sjónvarpsins er líklega mest áhorfða sjónvarpsefni í heimi. Við höfum kannað áhorfið síðustu fimm ár og séð að á bilinu 91-95% Íslendinga sjá skaupið," segir útvarpsstjórinn.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×