Innlent

Aron Pálmi segir starfsmann bandaríska sendiráðsins hafa hótað sér

Aron Pálmi Ágústsson segir íslenskan starfsmann bandaríska sendiráðsins hafa haft í hótunum við sig í miðbæ Reykjavíkur fyrir nokkrum vikum. Hann segist hafa kvartað undan framkomu mannsins hjá utanríkisráðuneytinu og sendiráðinu en sendiráðið vísar ásökunum Arons Pálma alfarið á bug.

Aron Pálmi Ágústsson kom til landsins í lok ágúst síðastliðnum eftir 10 ára fangelsisvist í Texas í Bandaríkjunum. Hann segir að á föstudagskvöldi fyrir rúmum mánuði hafi komið að honum íslenskur maður í miðbæ Reykjavíkur sem kvaðst vera starfsmaður bandaríska sendiráðsins og afhenti honum nafnspjald.

Aron segir manninn hafa haft í hótunum við sig. Hann hafi sagst hafa það verk með höndum að hafa auga með Aroni Pálma hér á landi og hann varaði hann við því að stíga fæti inn í bandaríska sendiráðið. Ef hann gerði það myndi maðurinn sjá til þess að hann yrði handtekinn.

Aron segist hafa hringt í bandaríska sendiráðið og Utanríkisráðuneytið og kvartað undan framkomu mannsins. Bandaríska sendiráðið vísar ásökunum Arons Pálma alfarið á bug í samtali við fréttastofu og segir engar kvartanir hafa borist sendiráðinu. Þá fullyrðir upplýsingafulltrúi sendiráðsins að það stundi ekki eftirlit með Aroni Pálma Ágústssyni né öðrum einstaklingum á Íslandi.

Fréttastofan hefur undir höndum nafnspjaldið sem Aroni Pálma var afhent. Upplýsingafulltrúinn staðfestir að maðurinn sé starfsmaður sendiráðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×