Innlent

Einstæður öryrki lá látinn dögum saman

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Konan var íbúi í Hátúni 10.
Konan var íbúi í Hátúni 10.

Einstæð kona lá látin í íbúð sinni í Hátúni 10 í meira en viku án þess að vitað væri um afdrif hennar. Hún fannst í fyrradag. Íbúðirnar í Hátúni 10 eru í eigu Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins, fékk vitneskju um málið í dag og segist líta það mjög alvarlegum augum. Sambærilegt mál kom upp fyrir tveimur árum.

„Ég er mjög hryggur og reiður yfir því að þetta skyldi hafa gerst," segir Sigursteinn í samtali við Vísi. Hann segist hafa kallað til sín formann og framkvæmdastjóra hússjóðs Öryrkjabandalagsins, fulltrúa lögreglunnar og yfirmann heimaþjónustu Reykjavíkurborgar til að fara yfir málið um leið og hann frétti af því.

„Ég gerði kröfu um það þegar sambærilegt atvik gerðist fyrir tveimur árum, að eftirlit yrði aukið, þannig að atburður eins og þessi gæti ekki endurtekið sig. Þess vegna harma ég mjög að þetta skyldi hafa gerst," segir Sigursteinn.

Sigursteinn segir að atvikið verði rannsakað af lögreglunni. Kannað verði hvort einhver öryggisatriði hafi verið brotin. Þá verði farið yfir hvaða þjónustu hinn látni átti rétt á. Sigursteinn segir að farið verði yfir hvers vegna hin látna hafi ekki verið á skrá hjá heimaþjónustu Reykjavíkuborgar og hvers vegna hún hafi ekki fengið þá heilbrigðisþjónustu sem í boði er á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×