Innlent

Fátækir flýja út á land

Fátækir eru farnir að flýja dýrt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og leita í ódýrara úti á landi að sögn félagsráðgjafa hjá Hjálparstarfi kirkjunnar sem sér um matarúthlutun fyrir jólin.

Á hverju ári þarf fjöldi fólks að leita aðstoðar til að geta haldið jólin hátíðleg. Í ár líkt og síðustu tvö árin standa Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Reykjavíkurdeild Rauða krossins sameiginlega að úthlutun matarpakka fyrir jólin.

Í fyrra nutu á milli fimm til sex þúsund einstaklingar mataraðstoðar um jólin og virðist sem að fjöldinn verði svipaður í ár. Enn eiga þó umsóknir eftir að skila sér þar sem hægt er að sækja um hjá Mæðrastyrksnefnd fram á fimmtudag.

Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir það vekja athygli, þegar farið er yfir umsóknir sem að hafa borist, að fólk sem áður bjó á höfuðborgarsvæðinu er flutt burt í nágrannasveitarfélög eða í lítil sveitarfélög úti á landi. Þetta sé bæði vegna þess hve dýrt húsnæði er á höfuðborgarsvæðinu og hversu erfitt sé að fá húsnæði leigt. Þegar lægstu launin dugi ekki fyrir húsaleigunni þá sé hreinlega ekki annað að gera fyrir fólk en að flytja út á land.

Vilborg segir jólin erfiða tíma fyrir marga sem hafa það naum fjárráð að þeir megi ekki við neinum aukaútgjöldum sem fylgja jólunum. Ekki aðeins líði foreldrum illa yfir að geta ekki gefið börnum sínum jólagjafir heldur séu kröfur samfélagsins orðnar þannig að sjálfsagt þyki að börn fái ýmsar dýrar gjafir eins gsm síma og tónlistaspilara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×