Innlent

Ætlar aldrei aftur upp í flugvél

Breki Logason skrifar
Flugvél Icelandair gat ekki lent á keflavíkurflugvelli í gærkvöldi.
Flugvél Icelandair gat ekki lent á keflavíkurflugvelli í gærkvöldi.

„Það voru allir öskrandi, æpandi og ástandið var víst skelfilegt, faðir minn segist aldrei ætla aftur um borð í flugvél," segir ungur maður en foreldrar hans áttu að koma með flugi Icelandair frá Kanaríeyjum í gærkvöldi.

Vélin sem var í leiguflugi fyrir Úrval-Útsýn átti að lenda um hálf ellefu leytið en veðrið var mjög slæmt að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafulltrúa Icelandair. „Það var reynd lending og vélin fór í svokallað aðflug. Það varð mikill þrýstingur og fólk varð skelkað. Það var síðan tekin sú ákvörðun að lenda á Egilstöðum og vélin lenti þar hálftíma síðar."

Þegar vélin var á leið austur var tekin sú ákvörðun að kalla eftir læknisaðstoð og áfallahjálparteymi. Einnig þurfti að kalla út nýja áhöfn þar sem leyfilegur hámarkstími flughafnarinnar var útrunninn. Því þurfti ný áhöfn að fljúga austur og síðan með vélinni aftur til Keflavíkur, en vélin lenti klukkan fimm í morgun.

Guðjón segir að um borð hafi verið 189 manns og af þeim kusu 45 að verða eftir á Egilstöðum þar sem þeir treystu sér ekki aftur í flug strax.

Einhverjir af þeim flugu síðan suður í morgun en einhverjir ætla að taka bíl í bæinn. „Það verður séð um það," segir Guðjón aðspurður um kostnað af ferðalagi fólksins í bæinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×