Handbolti

Ólafur æfði í dag - „gekk vel“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson í leiknum gegn Svíum.
Ólafur Stefánsson í leiknum gegn Svíum. Nordic Photos / AFP

Ólafur Stefánsson æfði með íslenska landsliðinu í handbolta í Þrándheimi í dag og gekk vel að sögn Einars Þorvarðarsonar, framkvæmdarstjóra HSÍ.

Einar sagði að ákvörðun yrði tekin fyrst á morgun hvort Ólafur verði með gegn Þýskalandi. Hann meiddist strax í fyrsta leik gegn Svíum og var ekki með Íslandi gegn Slóvakíu og Frakklandi um helgina.

Ólafur hefur sjálfur sagt að hann ætli sér að verða með í fyrsta leik Íslands í milliriðlakeppninni. Ísland mætir Þýskalandi í Þrándheimi á morgun klukkan 15.20.

Einar sagði að enginn leikmaður yrði kallaður inn í íslenska landsliðshópinn eins og heimilt er að gera áður en milliriðlakeppnin hefst.

Jaliesky Garcia var veikur í gær og missti af þeim sökum af leiknum við Frakka. Einar sagði að Garcia væri hitalaus í dag og á batavegi.

Hann vildi þó ekkert segja til um hvort að Garcia yrði orðinn leikfær á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×