Innlent

Ógilt hjúskaparvottorð Fischers og Watai

Bobby Fischer var bandarískur ríkisborgari allt þar til bandarísk yfirvöld ógiltu vegabréf hans árið 2003. Guðjón Ólafur Jónsson, lögfræðingur systursona Fischers segir að samkvæmt hjúskaparvottorði því sem Watai hefur framvísað komi fram að þau gengu í það heilaga í ágúst 2004.

Í frétt Reuters af málinu á sínum tíma er haft eftir japönskum lögfræðingi Fischers að yfirvöld hafi ekki viðurkennt hjúskapinn þar sem Fischer hafi ekki getað framvísað löggiltum skilríkjum.

Þegar fréttastofa hafði samband við japanska sendiráðið í dag sagðist Yosihiko Yura, ráðgjafi hjá sendiráðinu, ekki geta staðfest hjúskapinn. Hann sagði sendiráðið ekki hafa undir höndum gögn sem sanni að Watai og Fischer hafi gengið í það heilaga og að hjúskaparvottorðið sem Watai hafi framvísað sé ekki frumrit og því í raun ógilt. Þar til Watai gæti sannað hið gagnstæða væri litið svo á að Fischer hafi verið ókvæntur.

Talið er að Fischer hafi látið eftir sig um 150 milljónir króna.Tilkall til þeirra hafa semsagt unnusta hans og tveir systursynir gert. Vinir Fischers á Íslandi hafa sagt að Fischer hafi látið eftir sig dóttur, Jinky Ong, sem nú býr á Filippseyjum. Hún hafi heimsótt hann fyrir tveimur árum ásamt móður sinni og farið hafi vel á með þeim.

Þá hafa margir erlendir fjölmiðlar fullyrt að á fæðingarvottorði hennar standi að faðirinn sé Fischer. Ekki er vitað hvort hún hafi gert tilkall til arfsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×