Innlent

Bjarni hættur í REI - Júlíus Vífill sagður líklegur eftirmaður

Andri Ólafsson skrifar

Bjarni Ármannsson er hættur sem stjórnarformaður Reykjavík Energy Invest. Samkvæmt heimildum Vísis tilkynnti hann stjórnendum Orkuveitu Reykjavíkur þessa ákvörðun sína í síðustu viku.

Kjartan Magnússon, nýr stjórnarformaður Orkuveitunnar sagði enga ákvörðun hafa verið tekna um hver eftirmaður Bjarna verði en Vísir heyrir háværan orðróm þess efnis að Júlíus Vífill Magnússon borgarfulltrúi taki við starfinu.

Þá er einnig óljóst hvað verður um forstjóra REI, Guðmund Þóroddsson, en sjö mánaða leyfi, sem hann tók frá störfum sem forstjóri Orkuveitunnar til að koma REI á koppinn, er senn á enda. Kjartan segir að enn eigi eftir að ræða hvort hann muni snúa aftur í forstjórastól Orkuveitunnar.

Heimildarmenn Vísis úr Sjálfstæðisflokknum telja afar ólíklegt að svo verði en borgarfulltrúar flokksins voru æfir yfir framgöngu Guðmunds í REI málinu svokallaða. Sérstaklega hvernig hann stóð að kynningu á sameiningu REI og GGE fyrir borgarfulltrúunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×