Innlent

Búðarháls á undan Þjórsárvirkjunum?

Vatnsaflsvirkjun á hálendinu ofan Sultartanga gæti orðið næsta stórvirkjun landsins. Vegna erfiðleika við að afla leyfa fyrir virkjunum í neðri Þjórsá hefur Landsvirkjun nú dustað rykið af áformum um Búðarhálsvirkjun og gætu framkvæmdir hafist síðar á árinu.

Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hófust reyndar sumarið 2001 með vegagerð og smíði brúar yfir Tungnaá en einnig var grafið fyrir grunni stöðvarhúss. Framkvæmdum var hætt þegar fallið var frá Norðlingaölduveitu, sem Landsvirkjun sagði þá að væri forsenda Búðarhálsvirkjunar. En nú hafa aðstæður breyst. Orkuverð hefur hækkað og áhugasamir kaupendur í viðræðum við Landsvirkjun eru tilbúnir að greiða hærra verð en áður.

Búðarhálsvirkjun er nú líkleg til að verða á undan umdeildum virkjunum í neðri Þjórsá, þótt þær séu hagkvæmari að mati Landsvirkjunar. Ólíkt þeim er Búðarhálsvirkjun á grænu ljósi. Öll leyfi liggja fyrir sem og umhverfismat. Á meðan standa enn yfir samningaviðræður við landeigendur við neðri Þjórsá og sveitarfélög eiga eftir samþykkja þær inn á skipulag.

Búðarháls er á milli Sultartanga og Hrauneyjafoss. Tungná yrði stífluð neðan Hrauneyjafosssvirkjunar og leidd í fjögurra kílómetra löngum jarðgöngum í gegnum Búðarháls. Stöðvarhús yrði við ofanvert Sultartangalón. Útboðsgögn eru í vinnslu þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×