Innlent

Á endanum framkvæmdavaldið sem skipar dómara

Umdeild skipan héraðsdómara á Norðurlandi eystra kom enn til umræðu á Alþingi í morgun þegar forsætisráðherra var spurður út í það álit Dómarafélags Íslands að vinnubrögð Árna M. Mathiesens, setts dómsmálráðherra, væru til þess fallinn að draga úr sjálfstæði dómstóla.

Fyrirspyrjandi, Árni Þór Sigurðsson, vildi reyndar í óundirbúnni fyrirspurn til forsætisráðherra fá nákvæmar tímasetningar á því hvenær Árni Mathiesen hefði verið settur sem dómsmálaráðherra í málinu og hve langan tíma hann hefði tekið til að skoða og afgreiða málið.

Geir H. Haarde sagði fáránlega spurningu að ætlast til þess að hann hefði á takteinum einstakar dagsetningar um þetta efni en sagði að menn hefðu það kerfi hér, hvort sem mönnum líkaði það betur eða verr, að það væri á endanum framkvæmdavaldið sem skipaði dómara. Það bæri að gera það eftir bestu samvisku og á grundvelli bestu fenginna upplýsinga en á endanum væri það mat ráðherra sem hlyti að ráða.

Árni Þór sagði að þótt ráðherrann væri ekki bundinn af umsögn álitsnefndar væru völd hans takmörkuð. „Það sem hér er verið að vekja máls á í áliti Dómarafélagsins er ekki síst það að sjálfstæði dómstóla er stefnt í voða," sagði Árni Þór meðal annars.

Geir H. Haarde spurði þá hvernig það gæti veikt sjálfstæði dómstóla að skipa mann sem dómnefnd hafi metið hæfan. „Línan liggur þar sem dómnefndin sker á milli hæfra og óhæfra. Í þessu máli var enginn metinn ekki hæfur," sagði Geir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×