Innlent

Evrópusambandsaðild rædd fyrir luktum dyrum

Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson.
Forystumenn Samtaka atvinnulífsins ræddu fyrir luktum dyrum á Hótel Loftleiðum í dag hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Framkvæmdastjóri samtakanna, Vilhjálmur Egilsson, segir að menn vilji ekki afskrifa þann kost að hægt verði að taka upp evru án þess að ganga í sambandið en það sé að verða almennari skoðun að evran sé betri en krónan.

Það er til marks um hversu viðkvæmt málið er innan Samtaka atvinnulífsins að menn treystu sér ekki til að ræða það fyrir opnum tjöldum. Dyrum var lokað. Og í kaffihléinu höfnuðu bæði talsmaður iðnaðarins og útvegsins viðtali en samtök þeirra hafa verið á öndverðum meiði í afstöðunni. Aðeins framkvæmdastjórinn, Vilhjálmur, vildi tjá sig við Stöð 2.

Samantekt á heimasíðu samtakanna um fund þeirra um evruna fyrir tveimur vikum er undir fyrirsögninni Tími krónunnar liðinn.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna beggja hafa lýst þeirri skoðun að Ísland geti ekki tekið upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið.

Ljóst er að afstaða Samtaka atvinnulífsins til Evrópusambandsins getur haft úrslitaáhrif á stjórnmálaumræðuna, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins. Það er mat margra að snúist atvinnulífið almennt til fylgis við aðildarumsókn þá sé líklegt að stærsti stjórnmálaflokkurinn fylgi í kjölfarið.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×