Innlent

Lögreglan prófar rafbyssur

Sérsveitarmenn lögreglunnar hafa undanfarnar vikur verið að prófa svokallaðar rafbyssur á æfingum sínum. Að æfingunum loknum verður tekin ákvörðun um það hvort lögreglan taki slíkar byssur í notkun.

Það er embætti ríkislögreglustjóra sem stendur fyrir æfingunum en þeim er ætlað að meta hvort rafbyssunum verði bætt við þau valdbeitingartæki sem lögregla hefur þegar yfir að ráða. Ákveðið var í byrjun desember að fara út í þessar athuganir og hófust æfingar af fullum krafti fyrir um tveimur vikum.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra mun embættið skila niðurstöðum sínum til dómsmálaráðherra eftir um það bil tvær vikur. Þá verður tekin ákvörðun um það hvort lögreglan taki byssurnar í notkun en ekki liggur fyrir hvort það verði eingöngu sérsveitarmenn sem bera slíkar stuðbyssur eða hvort þær verði hluti af búnaði lögreglumanna almennt.

Skemmst er hins vegar að minnast þess að fyrst þegar piparúði var tekinn í notkun hjá lögreglu var úðinn eingöngu ætlaður sérsveitarmönnum en nú bera flestir lögreglumenn slíkan úða.

Milkar umræður hafa skapast um rafbyssur víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum og Kanada. Í Kanada hafa fjölmiðlar haldið því fram að átján manns hafi látist í landinu frá árinu 2003 eftir að rafbyssa hafi verið notuð á viðkomandi. Á vef fyrirtækisins sem framleiðir byssurnar kemur hins vegar fram að rannsóknir sýni að enginn hafi skaðast alvarlega eftir að hafa fengið raflost frá byssunum.

Í svari dómsmálaráðherra um málið á Alþingi nú í janúar kom fram að lögreglumenn verði ítrekað fyrir líkamstjóni í starfi og að athuganir á rafbyssunum sé hluti af því að leita leiða til að auka öryggi þeirra í starfi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×